Gullmolar

Þriðjudagurinn 12. september 2017:

„Hvar er þessi Star Wars röð sem allir eru að tala um?“ „Ha? Star Wars röð? Já! STAFRÓFSröð!“ 😀

Sunnudagurinn 7. maí 2017:
Við sitjum við matarborðið og erum að spjalla um dýrin og hver sé munurinn á dýrum og mönnum.
„Erum við gáfuðustu dýrin kannski?“ spyr mamma
„Nei það erum við ekki“ segir Róbert.
„Það held ég nú samt, af hverju helduru að við séum ekki gáfuðustu dýrin?“
„Fuglarnir halda örugglega líka að þeir séu gáfuðustu dýrin..“
Skák mát 😉

Miðvikudaginn 5. apríl 2017:
Við erum svolítið sein heim en Róbert þarf stundum að bíða nokkrar mínútur þar sem hann leggur að stað frá dægradvölinni klukkan 4.
Þegar við komum heim sjáum við Róbert hlaupa í litla hringi fyrir utan útidyrnar, það er greinilegt að honum sé mál.
María hleypur út til að flýta sér að opna hurðina svo hann komist á klósettið. „Þarftu á klósettið Róbert?“
„Já og greyið dýrin!“
„Dýrin?“
„Já, það er rusl útum allt og greyið dýrin!“ Og hleypur svo upp á klósettið 😉

Laugardagurinn 8. apríl 2017:
Við erum að stússast í húsinu og María segir við Kára að okkur vanti hallamál.
„Afhverju ekki konumál?“ spyr Róbert.
„Nei, HALLAmál, ekki kallamál“ 😂😂

Janúar 2017:
„Mamma, ég er rosa þreyttur og langar að fara að sofa!“ „Er það?!“ spyr mamma heldur hissa, enda ekki setning sem Róbert hefur nokkurn tíman sagt. „Nei, ég er bara að segja svona eins og fullorðnir þegar þeir segja eitt en meina annað.“ Vorum að útskýra kaldhæðni daginn áður, greinilega ekki nógu vel 😀

Þriðjudagurinn 9. febrúar 2016:
Pabbi kemur heim með Róbert og báðir þurfa mikið á klósettið. Róbert er þó svo góður og býður pabba sínum að vera á undan, á meðan hann bíður spjallar hann við mömmu sína.
„Mamma, ég þarf svo mikið á klósettið að pissið er ekki lengur hér,“ bendir á magann sinn „heldur allt komið í typpið. Þar er eitt piss að hugsa hvernig það á að komast út og líka annað piss, og líka hitt. Kennarapissið er líka að hugsa hvernig það á að komast út. Þetta er allt barnapiss, nema kennarapissið. Þetta er svona pissuleikskóli!“

Miðvikudagurinn 11. nóvember 2015:
„Mamma, þegar ég verð stór þá ætla ég að búa ennþá hjá þér og pabba“
„Það máttu ástin mín, en veistu, þegar ég var lítil þá sagði ég líka við mömmu mína að ég ætlaði alltaf að búa hjá henni, en svo varð ég ástfangin af pabba og þá vildi ég búa með honum, en ég elska ömmu Guðrúnu samt ekkert minna.“
„En ég ætla ekki að gifta mig þegar ég verð stór, veistu af hverju?“
„Nei, af hverju?“
„Af því að þá þarf ég að leita og leita og leita af þeim sem ég ætla að giftast á nóttunni og þá verð ég rosa þreyttur.“

Miðvikudagurinn 7. október 2015:
Það er kvöldmatartími og mamma María er að segja frá gömlum kalli sem hún var að vinna með á elliheimilinu fyrir langa löngu, sem lést 103 ára gamall.
„103 ára? Er amma Guðrún meiri en 103 ára?“ segir þá sá stutti 😉

Þriðjudagurinn 29. september 2015:
Mamma sagði við Róbert um daginn að hann þyrfti nú að hætta að sjúga þumalinn áður en hann yrði stór. Konan hans vildi nú kannski ekki sofa við hliðiná manni sem sýgur þumalinn. Róbert var greinilega búinn að melta þetta fram og tilbaka og í dag sagði hann „Ég get alveg sogið þumalinn þegar ég verð orðinn stór af því ég ætla að verða eins og Amma Guðrún.“ „Nú? Hvernig eins og Amma Guðrún?“ „Jú, svona ein heima.“ Þá er það leyst 😉

Sunnudagurinn 16. ágúst 2015:
Við erum að tala um þegar Róbert var ogguponsulítill og við segjum honum að þá áttum við heima í sama húsi og Halla frænka. Róbert spyr hvar Halla frænka á heima og við segjum að hún búi nú í Kópavogi, alveg eins og við. „Er hún rétt hjá?“ spyr þá sá stutti, en við viljum nú ekki meina það enda heilengi að labba til Höllu frænku sem býr í gamla Kópavogi en við í 203 Kópavogi, „sjáðu til,“ segir mamma, „Kópavogur er nefninlega svolítið stór.“ „Líka Afríka!“ Jújú, líka Afríka 😉

Laugardagurinn 1. ágúst 2015:
Á laugardaginn var haldið uppá 29 ára afmælið hennar Maríu. Haldið uppá í þeim skilningi að þá var hinn árlegi afmælismatur Maríu og Báru frænku heima hjá afa Frikka og Ömmu Steinu, en þá grillar Afi frikki sínar dásamlegu nautalundir og stúlkurnar fá að opna pakka. Að þessu sinni fékk María stórann pakka frá öllum í fjölskyldunni. (Róberti og Systur hans, Pabba og Báru Frænku, Ömmu Steinu og Afa Frikka, Ömmu Hrefnu og Afa Frikka og Ömmu Guðrúnu).

Kári var dálíið hræddur um að María myndi fatta hvað var í pakkanum þegar hún sæi hann og ákvað því að reyna að villa fyrir. Hún fékk því lítinn pakka sem innihélt miða og á miðanum sem sagði henni að loka augunum og rétta út hendurnar. Þá fékk hún stóra pakkann.

Um hádegið höfðu Kári og Róbert farið heim til afa og ömmu til að fela stóra pakkann og undirbúa herlegheitin. Róbert lofaði að segja mömmu ekki neitt.

Þegar heim var komið fór Róbert beint til mömmu sinnar:

Róbert: Mamma, ég datt í stiganum hjá afa og ömmu.
María: Ha varstu hjá Afa og Ömmu?
Róbert: Já, ég var bara að labba niður stigan og datt á rassinn.
María: Ha?
Kári höstugur áminnti Róbert: Róbert, hvar vorum við?
Róbert: Ég má ekki segja!

Eftir að við vorum búinn að hlæja dáldið segir Róbert: „Ég má bara segja frá littla p…“ en pabbi er fljótur að sussa. Sem betur fer fattaði María ekki neitt og sagði að hún hefði aldrei fattað hvað var í pakkanum. Fyrirhöfnin var því algjör óþarfi, en skemmtileg eigi síður, það er ekki hægt að treysta litlum fjögurra ára 😉

Föstudagurinn 13. mars 2015:
María er að hátta Róbert og Róbert reynir að sannfæra mömmu sína að hann þurfi ekki að fara á klósettið áður en hann fer að sofa, því hann geti bara pissað í rúmmið og við getum þá keypt aðra dýnu ef hún skemmist. Þetta finnst mömmu ekki góð hugmynd og segir:
„En dýna kostar rosa marga peninga Róbert og við viljum nota peninginn í eitthvað annað, eins og útlandaferð!“
„Erum við að fara til útlanda?!“ Úbbs, Róbert er búinn að vera rosalega spenntur fyrir því að fá að fara í flugvél til útlanda.
„Nei, við erum að safna fyrir útlandaferð, hún kostar rosa marga peninga og við þurfum að safna fyrir útlandaferð.“
„Hvað eigið þið marga peninga?“
„Ég veit það nú ekki alveg…“ Finnst heldur flókið að fara að útskýra peningabókhaldið fyrir fjögurra ára drengnum og að verð á útlandaferð geti nú breyst.
„Eruð þið ekki búin að telja í bauknum ykkar?“

Mánudagurinn 9. febrúar 2015:
Róbert á að vera farinn að sofa en læðst svo fram til mömmu og pabba.
„Mamma, heldur þú að ég sé með barn í maganum eða er þetta bara matur?“
„Þetta er nú örugglega bara maturinn, ástin mín“
„Ég held að þetta sé strákabarn í maganum mínum“
„Maður þarf að vera fullorðinn til þess að eignast barn,“ útskýrir mamma með bros á vör.
„Bíðum bara,“ segir sá stutti.
„Ertu ekki tilbúin í ömmuhlutverkið María?“ spyr Kári 😉

Sunnudagurinn 25. janúar 2015:
María er að segja Kára frá því að henni sé íllt í brjóstkassanum (millirifjagigt) og Róbert segir:
„Sumar mömmur eru með svooooona stór brjóst“ og heldur höndunum eins langt út frá líkamanum og hann getur.
Mamma og pabbi hlæja svolítið, en Róbert vill leiðrétta sig:
„Nei, fyrirgefðu, svooooona stór brjóst“ og beygir sig niður alveg að tánnum með hendurnar.
„Jahá, og hefur þú séð mömmur með svona stór brjóst?“
„Nei, bara í draumnum* mínum“
Nú hlæja mamma og pabbi svo mikið að þau ná varla andanum! Elsku barn! Ertu fjögurra ára eða fjórtán?
*Róbert hefur enn ekki áttað sig á hvað draumar eru. Þegar við spyrjum hann hvað hann hafi verið að dreyma um nóttina þá hefur hann ekki hugmynd um hvað við erum að tala um. Svo virðist sem hann muni aldrei eftir neinum, eða dreymi kannski bara ekki?

Miðvikudagurinn 14. janúar 2015:
Róbert heldur á litlum leikfanga sporðdreka og vill sýna foreldrum sínum „orminn.“ Þá segir Kári „nei, þetta er ekki ormur þetta er sporðdreki.“ „Alveg eins og þú Róbert,“ segir mamma. Þú ert stjörnumerkið sproðdreki. Alveg eins og ég er ljón, pabbi naut og þú ert sporðdreki.“ „Nei! Ég er kjúklingur!“ tilkynnir snillingurinn. Þá vitum við það..

Miðvikudagurinn 14. janúar 2015:
María er að sækja Róbert á leikskólanum og lætur hann vita að þegar „við komum heim þurfum við að hjálpast að við að taka til í herberginu þínu, amma Hrefna og afi Finnur eru að koma í heimsókn.“ „Ég vil fara í heimsókn í húsið þeirra, af hverju eru þau að koma í heimsókn í okkar hús?“ „Við fórum í heimsókn til þeirra síðast, nú eru þau að koma í heimsókn til okkar.“ Þá segir Róbert að „við getum farið í heimsókn í húsið þeirra og þau í heimsókn í húsið okkar!“ „Af hverju ættu þau að vilja koma í heimsókn til okkar þegar við erum ekki þar?! Hvað eiga þau að gera heima hjá okkar ef við erum ekki heima?“ spyr María. „Taka til kannski?“ með mjög alvarlegri röddu. María hlær „taka til? Af hverju ættu þau að vilja taka til heima hjá okkur? Eigum við ekki að gera það sjálf?“ „Þau bara ráða, þau geta gert eitthvað annað“

Miðvikudagurinn 14. janúar 2015:
Samskipti eru ekki auðveld og mikið af uppeldi Róberts þessa dagana fer í að ræða hvað má og hvað má ekki við aðra. Til dæmis að spurja fyrst áður en maður kyssir einhvern, að maður biðst fyrirgefningar þegar maður meiðir einhvern (líka þegar það er óvart), að maður segir og gerir fallega hluti við aðra eins og að brosa, segja „peysan þín er falleg“ og svo framvegis. Eitt af því sem við höfum verið að ræða er að maður er ekki að ulla á aðra, nema í sérstökum tilfellum þegar allir eru í stuði og finnst það skemmtilegt. Við erum að drífa okkur út á leið í leikskólann og þá spyr sá litli „Mamma, ertu í ullastuði?“ „Ha?!“ „Mamma, ertu í svona ullastuði, svona uuullastuði?“ „Já! Æj, nei ástin mín, ég er það ekki akkurat núna.“ „Oh! Mig langaði svooo að ulla á þig…“

Miðvikudagurinn 14. janúar 2015:
Eldhúsklukkan bilaði hjá okkur fyrir um það bil ári síðan og ekki í fyrsta sinn segir María yfir morgunverðarborðið „við ættum að láta laga klukkuna Kári.“ Róberti stekkur þá upp og hleypur inn í herbergi. „Þið megið fá lánaða klukkuna mína!“ Róbert á úr sem er fyrir löngu orðið batteríslaust sem hann fékk gefins af Guðmundi langafa. „Ó, elsku hjarta, takk fyrir það. En úrið þitt er orðið batteríslaust og þá sést ekki á því hvað klukkan er. Sjáðu, hún er bara alltaf hálf 9!“ segir mamma María. „Nei, það er allt í lag, sjáðu, maður snýr bara svona,“ segir sá stutti og sýnir mömmu hvernig hægt er að snúa vísunum.

Laugardagurinn 9. ágúst 2014:
Pabbi liggur upp í rúmi að hvíla sig og er með sængina hans Róberts. Róbert er hjá honum og pabbi spyr:
„Ertu ánægður með sængina þína Róbert?“
„Já“
„En ertu ánægður með pabba?“
„Nei“
„Af hverju ekki?“
„Ég vil pabba sem ruglast aldrei og er ekki vond lykt af“
Þá labbar mamma inn í herbergið og pabbi spyr:
„En mamma, ertu ánægður með hana?“
„Já, það er ekki vond lykt af henni“
Kári lætur þá Maríu vita að Róbert sé ekki ánægður með pabba sinn og langar í nýjan.
„Ég er nú ekkert rosalega ánægð með það Róbert,“ segir mamma „hvar ætlaru svo sem sem að fá nýjan pabba?“
„Við kaupum bara nýjan“
„Hvar kaupir maður svoleiðis,“ spyr pabbi „bara út í búð? Svona pabbabúð?“
„Nei, í sundbúðinni,“ svarar sá stutti.
Þá vitum við það, það er hægt að kaupa pabba í sundbúðum. María er þó ekkert á því að við þurfum að skipta, frekar að senda pabba oftar í sturtu 😉
P.s. María er alls ekki sammála Róberti að það sé vond lykt af Kára, annað hvort er þefskyn gamlingjanna orðið svona lélegt eða barnið að rugla. Við viljum meina að barnið sé að rugla.

Mánudagurinn 4. ágúst 2014:
„Mamma ég ætla að knúsa þig. En bara einu sinni. Svo ætla ég að vera allan daginn ekki að knúsa.“

Fimmtudagurinn 3. júlí 2014:
Róbert er búinn að háma í sig mexikóskri kjúklinasúpu. Eins og vill til þegar maður hámar í sig mexikóskri kjúklingasúpu þá var súpan komin út um allt andlit. Foreldrarnir benda Róberti á þetta en hann harðneitar að hann sé eitthvað skítugur, hvorki á höndum né í andliti! Við biðjum hann þá að kíkja í spegil. Hann kemur til baka: „ég ER ekki skítugur á höndunum!“

IMG_20140703_191604

Þriðjudagurinn 1. júlí 2014:
Róbert er á mótórhjólinu sínu og segist ætla að keyra til útlanda. „Það gæti verið svolítið erfitt,“ segir mamma. „Ég kann að gera erfiða hluti!“

Mánudagurinn 30. júní 2014:
Róbert er með ab-mjólk (snilldar laktósafría ab-mjólkin frá Örnu!) á peysunni sinni. Mamma bendir Róberti á sulluskapinn „Róbert, þú þarft að fara úr peysunni, það er ab-mjólk á henni.“ Róbert kíkir niður – „Má ég sleikja?“

Mánudagurinn 23. júní 2014:
Við morgunverðarborðið:
Róbert: ég sá rosa stórann apa!
Mamma: já er það?
Róbert: já, en hann var ekki með stóran rass. Ekki eins og þú mamma.

Þriðjudagurinn 18. júní 2014:
María er að útbúa fundarboð fyrir húsfélagið. Róbert kemur og spyr hvað hún sé að gera. „Ég er að útbúa svona fund.“ „Fundur? Svona prinsessufundur?“ „Öh.. ég held það komi líka prinsar á fundinn!“

Föstudagurinn 30. maí 2014:
Kári: „ég ætla að hringja í pabba“
Róbert: „ha pabba“
Kári: „Já, í pabba minn.
Róbert: „Mamma þín heitir afi Frikki og mamma hennar Maríu heitir Amma Steina“

Föstudagurinn 29. mars 2014:
„Mig vantar stórar fætur,“ segir Róbert við mömmu sína á meðan hann situr á klósettinu.
„Vantar þig stórar fætur? Nú?“
„Svo ég geti verið mamma.“
„Já, en þú veist að þú færð stórar fætur?“
„Á morgun?“

Sunnudagurinn 16. mars 2014:
Nikulás Máni frændi á eins árs afmæli og Róbert er búinn að velja rosa flotta flugvél handa honum í afmælisgjöf. Hann er mjög spenntur að fá að pakka henni inn. En mamma biður hann um að ganga frá dótinu sínu inn í herbergi fyrst. Allt í gúddí. Eftir smá stund kemur hann til mömmu og segir „Ég er búinn!“ „Já, er það?“ „Já, en ekki kíka samt!“ „Núú, en ég verð að athuga hvort þú hafir nokkuð gleymt að ganga frá einhverju.“ „Öhh.. ég gleymdi að ganga frá einhverju“ Viti menn það er enn allt dótið á gólfinu. Alltaf hægt að reyna 😉

Þriðjudagurinn 29. janúar 2014:
Róbert er á leikskólanum. Hann labbar upp að H leikskólakennara: „ég er upptekinn!“ „Ha? Ertu upptekinn?“ „Já..“

Fimmtudagurinn 23. janúar 2014:
Róbert er að segja sögur frá leikskólanum. „Þ fór veikur heim“ (Þ er besti vinur Róberts á leikskólanum). „Já,“ segir pabbi sem vissi hvað hafði gerst, „hann ældi á leikskólanum í dag og fór veikur heim.“ „Nei, pabbi, hann var að kubba!“ „Já, hann gubbaði,“ svarar pabbi. „Hahahaha, nei pabbi, hann kubbaði! Ekki gubbaði..“

Fimmtudagurinn 23. janúar 2014:
Krakkarnir eru úti að leika sé á leikskólanum. Það er mikil rigning og blautur snjór. Róbert ákveður að það besta sem hann getur gert núna er að leggjast í poll og rúlla sér í honum. Eftir einhvern tíma þegar hann er orðinn rennvotur og ekki þurr blettur á honum fer hann til fröken A sem er kennari á deildinni hans Róberts, réttir henni vettlinginn sinn og segir „A, vettlingurinn minn er blautur.“ Það er ekki þurr blettur á barninu.

Janúar 2014:
Róbert er inni í innra herbergi leikskólans að leika með strákunum. Eftir einhvern tíma kemur hann út og tilkynnir „það eru svo mikil læti í strákunum! Ég er svoo pirruð!“ Einn kennarinn reynir að leiðrétta hann „já, ertu pirrAÐUR?“ „já, ég er svoooo pirruð!“

Fimmtudagurinn 2. janúar 2014:
Við erum öll fjölskyldan upp í rúmmi að undirbúa háttatímann. Róbert fer að telja upp hvað allir vinirnir sínir á leikskólanum heita og hvað mamma og pabbi heita.
Pabbi: „Veist þú hvað mamma mín heitir Róbert?“
Róbert: „Já, Umbsdklum.“
Pabbi: „Nei, Amma Steina. Og pabbi minn heitir Afi Frikki.“
Róbert: „Neeeeeei..“ Með bros á vör 🙂
Mamma: „Jú, og mamma mín heitir Amma Guðrún, pabbi minn Afi Finnur og hin mamma mín Amma Hrefna.“
Róbert: „Haha, nei! Þið eruð bara að grínast!“ Og hlær og hlær og hlær 😀

Föstudagurinn 11. október 2013:
Róbert kemur spenntur til pabba síns með tómt smoothie glasið og spyr „pabbi, á ég að setja glasið í vaskinn?“ Pabbi segir „já, endilega settu glasið í vaskinn!“ Róbert hleypur, setur glasið í vaskinn og hleypur svo aftur til pabba og segir „pabbi, ég setti glasið í vaskinn!“ En þá bætir hann við ennþá spenntari „á ég að sækja glasið?!“ Pabbi segir „öh, jájá, ef þú getur..“ Þá segir hann „já, ég get! Ég sæki stólinn, stend upp og sæki glasið.“ Sagt og gert, hann kemur með glasið aftur til pabba, ótrúlega stoltur! „Sjáðu pabbi ég gat!! Ég bara sækjaði glasið! Á ég að setja glasið í vaskinn?“ Og svo fer hann og sækir glasið og skilar því aftur og aftur..

Miðvikudagurinn 28. september 2013:
Mamma er að dást að kinnum Róberts: „þú ert með svo æðislegar kinnar Róbert, mig langar bara til þess að borða þær!“ „Nei, það má ekki“ „Nú?“ „Þú verður að setja þær á disk fyrst..“

Miðvikudagurinn 28. september 2013:
Það er tónlist á fóninum og Róbert segir „þetta er gott lag!“ og fer að dansa. Eitthvað fannst honum takturinn tómlegur og bað pabba um að taka þátt. „Dansa með, pabbi.“ Pabbi byrjar að sjálfsögðu að dilla sér með. „Nei, ekki svona. Svona!“ segir Róbert og sveiflar höndunum útum allt. Pabbi reynir eins og hann getur að herma eftir. „Þú ert svo stór, þú getur ekki dansað!“

Mánudagurinn 29. júlí 2013:
Róbert og pabbi eru búnir að vera heima í sumarfríi í allan dag. Þegar mamma kemur heim úr vinnunni segja þeir feðgar hvað þeir hafa verið að bralla um daginn, meðal annars voru þeir að tala um dauðann og Róbert hafi viljað meina að það væri gaman að vera dáinn. Til þess að staðfesta þessa sögu spyr mamma „Er gaman að vera dáinn Róbert?“ „Nei,“ ansar Róbert. „Er þá gaman að vera lifandi?“ „Nei, ég vil bara gaffal!“

Miðvikudagurinn 10. júlí 2013:
Pabbi og Róbert eru úti að róla. Róbert vill fá pabba til þess að ýta sér en er greinilega ekki að ýta nógu fast og segir „pabbi, ýta mér langt lang laaaangt út í geit! Og taka mynd..“

Júní 2013:
Róbert og pabbi eru að skoða stóru dýrabókina. Róbert bendir á fiskinn og segir „fiskurinn leiður!“ Pabbi spyr „er fiskurinn leiður?“ „Já, hann vill ekki vera í baði!“

Laugardagurinn 27. apríl 2013:
Við erum á leiðinni heim eftir gott matabroð hjá Ömmu Steinu og afa Frikka. María er að keyra þegar heyrist í Róberti „Mamma, rétta mér Sunna Rut.“ „Ha? Rétta þér Sunnu Rut?“ „Já. Sunna Rut.“ „Er það einhver á leikskólanum,“ spyr Kári. „Ekki hugmynd! Það gæti verið svolítið erfitt Róbert.“ „Allt í lagi, ég er með hann!“ Hver er Sunna Rut?!

Laugardagurinn 27. apríl 2013:
María er með saumaklúbbsstelpurnar í heimsókn hjá sér. Róbert er að taka lúrinn sinn í kerrunni úti á svölum. Klukkan er orðin ansi margt og María biður Kára um að taka Róbert inn, svo hann sofni nú um kvöldið. Kári gerir það en Róbert er ekki á þeim buxunum að fara að vakna strax. Kári skilur hann því eftir í kerrunni svo hann fái smá tíma til þess að vakna. Eftir smá tíma ákveður Róbert að nú vilji hann fara á fætur: „Mamma, mella! Maaaammmaaa mella!“ Sem sagt átti María að Sssmella Róbert lausan úr kerrunni. Ekki besta s:ið til þess að sleppa 😉

Fimmtudaginn 25. apríl 2013:
Róbert er í göngutúr með pabba, ömmu Steinu og afa Frikka. Liðið labbar inn í Tiger og ætla aðeins að skoða sig um. Í útvarpinu heyrist góð lög og Róbert hrópar: „tónlist!“ og fer að dilla sér í takt. Eftir smá stund kemur lagið It’s a wonderful world eftir Lois Armstrong. Þá heyrist í Róberti „pabbi syngja!“ Voða ánægður með að pabbi sinn kunni að syngja svona fallega.

Miðvikudagurinn 27. febrúar 2013:
Við erum að taka nokkrar myndir af Róberti en eftir smá stund vill hann líka fá að prófa að taka myndir og fær myndavélina í hendurnar og María sýnir hvar hann á að ýta á takkann. Hann tekur nokkrar myndir af mömmu og pabba og þegar hann er búinn að því fær hann að skoða skjáinn og sjá árangurinn sinn. Þarna eru rosa flottar myndir af okkur foreldrunum og við spurjum hverjir þetta eru á skjánum (svo hann fatti samhengið á milli þess að taka mynd og sjá hana svo á skjánum), og jújú drengurinn veit það. „Hvað eru þau að gera?“ „Pabbi kyssa mömmu, skamm pabbi!“ og slær létt í pabba sinn. Svona má greinilega ekki gera 😉

Þriðjudagurinn 5. febrúar 2013:
Róbert fékk nýjann stól sem var keyptur á barnalandi og María var að setja hann saman eftir að hafa þrifið hann. Hún þarf að nota hamar til þess að ná pinnanum inn á sinn stað. Þá heyrist í þeim stutta: „Mamma skamma stólinn“. Svo þegar María fer að nota sokkabuxur á milli til að vernda stólinn heyrist „Mamma skamma sokkabuxur Róberts“.

Mánudaginn 4. febrúar 2013:
Kári er að sækja Róbert á leikskólann og er að klæða Róbert í skónna og segir í leiðinni „fyrst vinstri skór, og svo hægri skór“. Þá segir Róbert „kuldaskór…“ og svo mjög ákveðið „ekki hægri skór!!“. Pabbi reynir að útskýra og segir „vinstri kuldaskór og hægri kuldaskór“. Þá segir Róbert enn ákveðnari og grimmur á svip „nei, bara kuldaskór!“.

Föstudaginn 18. janúar 2013:
María stendur fyrir framan spegillinn og er að greiða á sér hárið og setja í það tagl. Róbert bendir þá á mömmu sína og segir „mamma deyja!“
„Ha?! Mamma deyja?!“
„Deyja!“
„Já, er mamma með TEYJU?“ Með mikla áherslu á T:ið 😉
„Já“

Þriðjudaginn 15. janúar 2013:
Róbert er smá pirraður yfir því að mamma skyldi taka badmintonspaðan og boltanna sem hann vildi leika sér með en hún var á leiðinni í badminton. Í framhaldinu vill Pabbi sýna Róberti hvað badminton er og finnur leik á youtube. Þar eru kínverji og Malasíubúi að keppa í einliðaleik. Róbert starir á skjáinn og segir svo spenntur „Gangnam Style!!“

Sunnudaginn 13. janúar 2013:
Róbert er ný vaknaður og spyr eftir mömmu sinni. Kári segir eins og var „Mamma er úti“. Róbert svarar „Neeeei“ (Svona nei eins og maður segir þegar maður er viss um að hinn sé að plata). Svo heldur hann áfram fullviss“…Mamma í tölvunni!“

Föstudaginn 11. janúar 2013:
Róbert er að tyggja á einhverju og María spyr: „hvað ertu að borða?“ Róbert svarar með tóman munninn „hrmlahrml.“
„Ha? Ertu að borða hurð?“ spyr Kári.
Maríu grunar að hann hafi komist í morgunkornarskúffuna og spyr því „ertu að borða Cheerios, Róbert?“
„Já!“
„Er Cheerios erfitt orð?“
„Já..“ ansar Róbert.

Þriðjudaginn 20. nóvember 2012:
Við erum með mjög fasta morgunrútínu. Strax og Róbert vaknar, sem er yfirleitt um 6.45, hrópar hann á mömmu sína. Þau fara fram í stofu og Róbert fær að drekka. Kári heldur svo áfram að sofa í nokkrar mínútur þangað til María kallar „Kári, geturu gert graut?“ Stundum þarf María að kalla nokkrum sinnum svo að Kári vakni. Í morgun vildi Róbert hjálpa til og kallaði sí og æj „Kái, gjaut!!“ „Kái, gjaut!!“ (Ísl. Kári, graut!). Þá veit María hvað hún hljómar dónalega á morgnanna 😉

September/október 2012:
Við höfum ekki munað eftir því að skrifa þessa atburði niður þannig við erum ekki með nákvæma dagsetningu á þeim en þetta var einhverntíman núna í haust. Róbert fattaði það að ef hann bendur á einhverstaðar og segir „ó, ó“ þá kyssir mamma bágtið og allt verður betra! Í fyrstu var hann mjög spenntur yfir þessu og prófaði að benda á hina og þessa staði, eins og hendina á sér, ennið, bumbuna og sagði „ó, ó!“ Mamma var alltaf jafn góð og kyssti burtu „ó,ó“ið. Eftir smá tíma kom hann með fjarstýringu, benti á hana og sagði „ó, ó!“ Og svo símann.. 🙂
Anna Björg vinkona á heima útí sveit þessa dagana og vann á galdrasafninu í Hólmavík með galdrakallinum Sigga. Einn daginn fáum við fjölskyldan póstkort frá henni (sjá mynd hér að neðan). María les kortið upphátt fyrir alla og sýnir svo flottu myndina af kisunni Hippó (sem á heima á galdrasafninu) og eiganda hans, Sigga galdrakall. Róbert sem er orðinn expert í dýrunum horfir á kortið, bendir á Hippó og segir „mjááá“ og svo á Sigga og segir „api!“

Póstkortið með Hippó og Sigga galdrakall

Þriðjudagurinn 17. júlí 2012:
Róbert er afskaplega hrifinn af bíbí. Í dag skiptum við svo um banka og færðum öll viðskiptin okkar yfir til Íslandsbanka. Þar fékk Róbert nýjan bauk af lukkudýrinu þeirra sem er mörgæs og heitir Georg. Það fyrsta sem Róbert segir þegar hann sér Georg er „bíbí!“ Við húrrum honum náttúrulega fyrir að þekkja fuglinn. Svo er hann búinn að labba um með Georg í allan dag og hrópar „bíbí!“ og sleikir á honum gogginn. Svo þegar tími var kominn á mömmu mjólk vildi Róbert ekki vera dónalegur og bauð Georg að drekka með sér 🙂 „Hrm, Róbert, bíbí vill ekki mjólk, hún er handa þér!“ Róbert var samt greinilega alveg viss um að bíbí vildi mjólk og hélt honum því að brjóstinu af og til.

Miðvikudagurinn 4. júlí 2012:
Við erum í dýragarðinum í Barcelona. Eftir langan dag og mikið rölt komum við loksins að ljónunum. Róbert tekur ekki mikið eftir þeim enda eru þau langt í burtu en er hrifnari af girðingunni sem umlýkur dýrin. Allt í einu tökum við eftir því að Róbert er að skríða undir girðinguna og inn í ljónabúrið! Við rétt svo náum að grípa í fótleggina á honum og draga hann út við mikinn ófögnuð Róberts. Sem betur fer tóku ljónin ekkert eftir þessu enda sofandi og jú, svo var risa gjá sem kom í veg fyrir að ljónin kæmust nálægt girðingunni og þar með Róberti en óþægileg reynsla fyrir okkur foreldrana samt.

Ljónabúrið sem Róbert skreið inn í

Sunnudagurinn 5. febrúar 2012:
Róbert fer og sækir koppinn sinn og setur hann uppí sófa. Svo prílar hann uppí sófa og sest á koppinn. því næst teygir hann sig í fjarstýringuna, hallar sér framm og einbeittur á svip reynir hann kveikja á sjónvarpinu. Klárlega ekta karlmaður þarna á ferð!

Þriðjudagurinn 3. janúar 2012:
Upp á síðkastið höfum við reynt að kenna Róberti að vera „aaa“ við aðra. Róbert er fljótur að læra þetta og er byrjaður að klappa allt og öllu með góðu „aaa“:i. Þennan dag sofnaði drengur, Nökkvi, á gólfinun hjá dagmömmunni. Róbert var ekki lengi að skríða til hans og byrjaði að klappa honum blíðlega og segja „aaa..“ 🙂

Mánudagurinn 25. júlí 2011:
María er í tölvunni þegar að kemur upp villumelding sem segir „Windows does not recognize the USB device.“ María kannast ekki við að það sé neitt tengt við tölvuna og athugar því USB tengin í tölvunni. Þar er iPod snúra tengd og við hinn endan er Róbert með snúruna upp í sér. Ekki skrítið að tölvan gat ekki lesið „tækið“!

Þriðjudagurinn 26. apríl 2011:
Róbert er ný búinn að drekka hjá mömmu sinni og situr í fanginu hennar á móti henni og er að spjalla. Allt í einu tekur hann fast tak í hálsmálið á mömmu sinni, dregur sig að henni og ælir vænni gusu beint ofan í brjóstahaldarann hjá henni! Horfir svo á mömmu sína og brosir út að eyrum en hún getur ekki andað því hún hlær svo mikið!

Auglýsingar

Nýlegar færslur

 1. Læst: Frikki Lói rennibrautafíkill Sláðu inn Lykilorð til þess að skoða athugasemdir.
 2. Þegar maður er svo sætur að Snapchat filter bætir engu við Skildu eftir svar
 3. Gítarnámskeið fyrir 1 árs? 2 Svör
 4. Róbert í sjónvarpinu 1 Svar
 5. 1,5 ára Frikki Lói 3 Svör
 6. Ekki dýr í matinn, takk! 1 Svar
 7. Litli snigill 2 Svör
 8. Fyrsti skóladagurinn… og sá síðasti 1 Svar
 9. FrikkaLóaiska 1 Svar
 10. Gullmoli Róbert 2 Svör
 11. Fögnum fjölbreytileikanum! 3 Svör
 12. Þau læra það sem fyrir þeim er haft… 3 Svör
 13. Morgnarnir hjá okkur – alltaf! 1 Svar
 14. 1 árs! 4 Svör
 15. 11 mánaða Skildu eftir svar
 16. Peningur til þín peningur til mín 3 Svör
 17. Gleðilegt nýtt ár 2017! 2 Svör
 18. Styttist í eins árs afmæli! 1 Svar
 19. Við ætlum að kaupa hús! 4 Svör