Fæðingarsagan

María var byrjuð að fá netta verki klukkan 5 á sunnudagsmorgni (þann  14. nóvember). Það var klukkutíma eftir að Kári fór að sofa, en hann festist yfir stærðfræðibók sem hann var að lesa sér til skemmtunar. María fær sér að borða en fer aftur að sofa. Hún rumskar við verkina af og til, en nær að sofa til 13.00. Þá fara Kári og María að reikna stærðfræði, Kári fyrir dæmatíma sem hann kennir og María fyrir menntaskóla stærðfræði áfanga sem hún er að taka (já, við erum líklega nördalegasta par ever).

Anna Björg, vinkona Maríu, er í bænum og spyr hvort að María vilji ekki koma í göngutúr. María er meira en til og fara þær í langan göngutúr sem endar á kaffihúsi í Hamraborg þar sem þær fá sér sterka kjúllasúpu. Það er sem sagt allt gert til þess að koma Maríu af stað (það er sagt að göngutúrar og sterkur matur eigi að hjálpa við að koma hríðum af stað). Þegar María kemur heim um 16.00 eru verkirnir orðnir áberandi og byrjum við þá að telja tímann á milli hríða á meðan haldið er áfram að reikna stærðfræði. Við erum samt ekki of vongóð um að eitthvað sé að gerast, svo að við verðum ekki fyrir vonbrigðum. Þetta hefðu geta verið fyrirvaraverkir. Það er rétt eftir það sem að færslan „Malla í gang?“ er skrifuð. Til að mæla tíman á milli notum við þessa snilldarsíðu; Contraction Master.

vika38

Þar sem spítalataskan er enn ekki fullbúin klárum við að pakka í hana og rennum til foreldra Kára þar sem vagga Kuskilíusar er, bara svona til öryggis. Við tökum allt spítala dótið með svona ef allt færi í gang á leiðinni. Foreldrar Kára búa á fjórðu hæð og þar er engin lyfta. María nýtir tækifærið og labbar stigana upp og niður nokkrum sinnum í félagsskap Kára. Þannig nær hún að halda verkjunum vel gangandi. Foreldrar Kára bjóða svo verðandi foreldrum upp á kræsilega kvöldmáltíð; spagettíkássa. María lætur það út úr sér að það væri nú leitt ef fæðingin væri ekki að koma eftir þessa orkumiklu og hollu máltíð.

Eftir matinn höldum við í Hagkaup í skeifunni þar sem við erum ekki með neitt nesti fyrir fæðinguna, svona ef skyldi. María labbar þar um í hríðum og velur sér kex, banana, kókómjólk, piparkökur og annað sem hún vill hafa með á spítalann. Kári gerir það sama nema án samdrátta. Þegar við erum á leið út rekumst við á Möggu vinkonu (ljósmyndarann okkar) og kærastann hennar Hilmar. En við erum að drífa okkur heim en látum þó vita að nú sé Kuskilíus kannski á leiðinni.

Þegar við komum heim er orðið frekar stutt á milli hríða eða minna en 5 mínútur. Halla frænka (sú sem er ljósmóðir og býr á hæðinni fyrir ofan okkur) kíkir til okkar og segir að það gæti nú vel verið að þetta séu almennilegar hríðar og ekki bara fyrirvaraverkir. Á þessum tímapunkti látum við alla foreldra vita að nú gæti verið að Kuskilíus sé loksins að koma. María ákveður að fara í bað og Kári hringir upp á Hreiður til þess að athuga hvenær sé æskilegt að fara til þeirra. Við fáum þau svör að því ráðum við nú bara sjálf, megum vera heima jafn lengi og við treystum okkur til. María er alveg til í að vera aðeins lengur heima.

Um 10 leytið um kvöldið erum við þó búin að ákveða að best sé að fara upp eftir og vera þá bara send heim ef svo kemur í ljós við skoðun að útvíkkun sé ekki nægileg. Halla kemur aftur niður til að tékka á okkur og líst vel á að við séum á leiðinni upp á spítala. Klukkan akkurat 11 erum við komin upp í bíl og erum lögð af stað. Nú eru samdrættir á 3 mínútna fresti og orðnar svolítið strembnar. Þegar við mætum upp á Hreiður er akkurat vaktaskipti og við þurfum að bíða til 00.15 eftir að fá skoðun. Við þurfum sem sagt að bíða talsvert eftir skoðun eða um klukkutíma og á meðan styrkjast hríðarnar. Við göngum ganginn fram og tilbaka og höldumst í hendur. Í hverri hríð stoppar María og kreistir puttana á Kára hressilega sem er orðinn vel sveittur í hendinni.

bill

Þegar svo loksins kemur að því þá kemur í ljós að María er með 6-7 cm í útvíkkun (af fullum 10 sem þarf til þess að hægt sé að byrja að rembast). Það er því ljóst að við erum ekkert á leiðinni heim aftur fyrir fæðingu. María getur ennþá talað í hríðum og er víst óvenjulegt að sögn ljósmóðurinnar þegar útvíkkun er komin svona langt. Við vorum búin að ákveða fyrirfram að vera ekki að fara upp á spítala fyrr en María væri hætt að geta talað í hríðum og taldi ljósmóðurin það happ að við fylgdum ekki þeirri reglu eftir. Hér látum við svo foreldra okkar vita að nú sé Kuskilíus alveg pottþétt á leiðinni í heiminn.

deild

Þar sem María er búin að vera með háan blóðþrýsting á síðari hluta meðgöngunnar er fæðingarlæknirinn á vakt látinn vita af okkur. Sá tekur ákvörðun um hvort María megi eiga á Hreiðrinu eða hvort við verðum flutt á fæðingargang. Ljósmóðirin sem er búin að taka á móti okkur, Eva, telur að við megum að öllum líkindum vera kjurr. Nú er tekið línurit þar sem mældar eru samdrættirnir og hjartsláttur barnsins samtímis til að athuga hvernig honum líði í hríðunum, sem sagt hvort hann sé að ráða við álagið.

rit

Því miður fáum við þær fréttir að fæðingarlæknirinn vill hafa okkur á fæðingargangi. Þetta er mjög mikil vonbrigði þar semvið vorum virkilega að vonast eftir því að fá að eiga á Hreiðrinu. Ljósmóðurin hrósar Maríu fyrir að vera komin svona langt í fæðingunni án deifingar og koma sér í gegnum hríðar aðeins með öndun og þykir að eigin sögn virkilega leiðinlegt að missa okkur yfir á hinn ganginn.

Við erum því færð yfir á fæðingardeild og þar tekur á móti okkur ljósmóðir sem heitir Margrét Guðmundsóttir. Við fáum stofu nr. 2, en hún er því miður ekki með baði og engin stofa með baði var laus. Næstu klukkutímar eru dálítið í móðu hjá okkur báðum.

Útvíkkunin gengur frekar hægt næsta klukkutíman. Margrét viðrar þá hugmynd að gera belgrof til þess að flýta fyrir og segir að við megum ráða hvort það sé gert eða ekki, en stingur svo upp á að bíða með það í klukkutíma og sjá til hvernig þróunin verður. Klukkutíma eða einum og hálfum tíma síðar hefur enn  lítið gerst og Margrét gerir belgrof. Vökvinn er ekki eins mikill og María hafði haldið en hún hefur alltaf talið að legvatnið hlyti að vera mikið þar sem bumban mældist alltaf svo stór. Það kemur svo í ljós eftir fæðinguna að drengurinn er stór og því var bumban stór.

María fær enga deyfingu í gegnum alla fæðinguna, aðeins smá glaðloft á vægum styrk (fór mest uppí 40%).  Eftir belgrofið fór þróunin að verða hraðari. Það vantaði samt alltaf aðeins upp á fulla útvíkkun (10 cm) og að María mætti byrja að rembast. Að lokum fengum við hálfgrænt ljós (ljósmóðirin virtist alltaf vera á báðum áttum hvort að María mætti byrja að rembast eða ekki, stundum var það í lagi en stundum ekki). Milli klukkan 05:30 og 06:00 byrjaði rembingurinn fyrir alvöru. Margréti fannst sumar hríðarnar inn á milli ekki nægilega sterkar og setur Maríu á hríðörvandi drip (vökva lyf í æð).  Okkur fannst þetta ekki hjálpa sérstaklega mikið þar sem þessar „veiku“ hríðar héldu áfram að koma inn á milli þar til barnið er fætt. María telur einnig „veiku“ hríðarnar hafi verið leið fyrir líkaman hennar að jafna sig inn á milli í öllum átökunum.

gladloft

Margréti til aðstoðar var starfsmaður í þjálfun. En eitt sinn í miðjum rembingi hjá Maríu líður yfir nýliðann. Hún dettur kylliflöt í gólfið. Hún fær að fara fram og nýr aðstoðarmaður kemur í stað hennar. Síðar þegar rembingurinn er orðinn enn meiri fær María að styðja fæturnar við mjaðmirnar á ljósmóðurinni og nýliðans sem er komin aftur. Þá finnur nýliðinn aftur til aðsvifs og fær að fara fram. Þetta er ekki á besta tíma og María biður Kára um að koma í hennar stað.  Þetta er staða sem Kára finnst ekkert alltof þægilegt að vera í; að sjá sína heitt elskuðu í þessari aðstöðu. Í þriðju hríðinni eftir að Kári tók við hafði hann fært sig nær hausnum á Maríu en leyft henni að spyrna í handlegginn á sér í staðinn fyrir mjöðmina.

Þarna er kollurinn á barninu komin mjög neðarlega og María fær að teygja sig niður og finna fyrir honum. María var samt ekki alveg að trúa því að þetta væri kollurinn enda fann hún bara fyrir einhverri mjúkri hrukku. Hún spyr því mjög hissa „Er þetta kollurinn?!“ Þarna höfðum við talið í einhvern tíma í hverri einustu hríð að nú ætti kollurinn að fara að koma. Það urðu því mikil vonbrigði þegar að María spyr hvort að hann gæti komið í næstu hríð og ljósmóðirin segir að svo sé ekki, það séu alveg nokkrar hríðir eftir. Greyið María sem hafði rembst eins og hún gat í þeirri von um að þetta væri að klárast fannst hún missa smá móðin við þessi orð.

En á endanum kemur hausinn. Kári, pabbi, gæjist á son sinn og sér þennan krumpaða, bláa, blóðuga lífvana haus og nett bregður þótt að hann vissi fyrirfram að svona gæti hausinn litið út. Kuskilíus okkar nær ekki að fæðast í einni hríð, og því þurfum við að bíða í 1-2 mínútur eftir næstu hríð til að koma búknum út. Drengurinn okkar rennur, nánast skýst, svo út og dettur á fæðingarrúmið. Aftur bregður Kára, alveg rosalega í þetta skiptið, og það sem María man frá þessari stundu er upphrópun Kára „Vó!“ um leið og hann bakkar með hendurnar út í loftið. Klukkan er þá 6.45

Drengurinn fær að fara beint á bringuna hennar mömmu sinnar. María er með tárin í augunum og það fyrsta sem hún hugsar er hvað hann er ofboðslega mjúkur og blautur. Hann grætur en hættir fljótt. Kári horfir framan í hann en barnið er þannig staðsett að María nær ekki að horfa á hann. Henni finnst hann svo brothættur að hún þorir varla að snúa honum og sér því ekki framan í hann fyrr en mörgum mínútum seinna. Enda er fæðingin því miður ekki búin og þar með sársaukinn ekki heldur og María nær því ekki alveg að einbeita sér fullkomlega að barninu.

María hefur rifnað alveg svakalega enda fæddist Kuskilíus með hendina við höfuðið og plássið því ekki nóg. Fyrst þarf María að fæða fylgjuna sem er ekki alveg sársaukalaust þar sem ljósmóðurin er stöðugt með hendurnar í sárunum við þá athöfn, Maríu fannst hún vera að toga í fylgjuna með naflastrengnum þótt hún geti ekki verið alveg viss um að það sé það sem hún sé að gera. Fylgjan kemur svo á endanum og hún lítur mjög vel út (Kára fannst hún reyndar ógeðsleg en ekki Maríu). Þá fær Kári að klippa naflastrenginn og það gerir hann með glæsibrag!

Svo koma læknar til að skoða Maríu sem var ekki skemmtilegt. María biður um að fá deyfingu á svæðið en þeir vilja ekki deyfa strax þar sem þeir eru að íhuga að senda Maríu í aðgerð og þá verður hún svæfð. Við vissum það þó ekki á þessum tímapunkti. En svo er það ákveðið og okkur sagt að María yrði að fara í aðgerð sem tæki um 2 klukkutíma með vöknun (sá tími sem tekur að jafna sig eftir svæfingu). Akkurat á þessum tíma eru vaktaskipti og okkur tilkynnt að við þurfum að bíða eftir svæfingarlækni. Þetta reynist okkur vera til happs  því þarna fáum við litla nýja fjölskyldan um 40 mínútur til að kynnast og María fær að prófa að setja Kuskilíus á brjóst sem okkur langaði til að fá að gera sem allra fyrst eftir fæðingu. Það heppnast einstaklega vel og tíminn að aðgerð er fljótur að líða. Brátt kemur fólk að sækja Maríu og Kuskilíus fer í fangið á pabba sínum.

Kári fer úr að ofan, sest í La-Z-boy stól sem er rúllað til hans og setur Kuskilíus á bringuna, en ungabörnum líður víst best húð við húð.  Svo fær hann teppi til þess að setja yfir þá feðga. Þarna fær Kári mjög dýrmætan tíma til þess að kynnast litlu geimverunni sinni. Lengi vel gerir Kári lítið annað en að stara á kollinn á honum sem stingur upp úr umbúðunum og finna hreyfingarnar á mallakútnum sínum. Hann þorir lítið að gera enda vill hann ekki hrófla við þessum viðkvæma gullmola.

Þegar Kári er búinn að vera með drenginn í um 40 mínútur þá ákveður hann að láta foreldra okkar vita að nýji erfinginn sé kominn í heiminn. Stuttu eftir það kemur hjúkrunarfræðingur sem að mælir Kuska á alla kanta en honum þykir það ekkert ýkja gaman og grætur mikið. Sem betur fer fær hann fljótlega að fara aftur til pabba og róast þá.

Um tíu leytið fær Kári þá fréttir að María sé komin úr aðgerð og að hún sé á vöknun. Það ætti því að fara að styttast í að fjölskyldan fái að sameinast. Þegar Kári rúllar Kuska í spítalavöggu inn á meðgöngu- og fæðingardeild þá labbar hann fram hjá vökuherberginu og sér Maríu sína. Hann fær þó ekki að fara inn en nær að kasta á hana kveðju og lætur vita að það sé í lagi með Kuska.

Þegar María er rúlluð inn í aðgerðar herbergið stuttu eftir fæðingu tekur á móti henni herlið lækna og hjúkrunarfræðinga. María fær mikið af hamingjuóskum og tvær spurningar eru síendurteknar; hvort hún sé með lyfjaofnæmi og hvort barnið hafi verið strákur eða stelpa. Þegar María er svæfð er hún brosandi út að eyrum og ofboðslega sæl yfir að nú sé Kuskilíus loksins fæddur. Þegar hún svo vaknar eftir aðgerðina kemst fátt að í huga hennar annað en hvort Kuskilíus og Kári séu í góðu lagi. Hún reynir að losna sem fyrst úr svefnrofinu sem svæfingin veldur til að geta komist sem fyrst til maka og barns.

Eftir að hafa fengið stutt hæ frá Kára kemur læknirinn sem saumaði Maríu og ræðir um aðgerðina og gefur ráð um framhaldið. Það er þó óttalega erfitt fyrir Maríu að halda einbeitingu enda langar henni bara að komast til fjölskyldu sinnar. Það kemur þó að því og við tekur yndislegur en erfiður tími (aðallega vegna svefnleysis) þar sem við fáum að kynnast barninu okkar og hann okkur.

/María og Kári

Auglýsingar

Ein hugrenning um “Fæðingarsagan

  1. Bakvísun: Vika 31: Lífið og bumba | Kári og María

Plís, kommentaðu! :)

Skráðu umbeðnar upplýsingar að neðan eða smelltu á smámynd til að skrá þig inn:

WordPress.com Logo

You are commenting using your WordPress.com account. Log Out /  Breyta )

Google+ photo

You are commenting using your Google+ account. Log Out /  Breyta )

Twitter picture

You are commenting using your Twitter account. Log Out /  Breyta )

Facebook photo

You are commenting using your Facebook account. Log Out /  Breyta )

w

Tengist við %s