Fæðingarsagan

Þetta var orðið heldur vandræðalegt. María búin að vera með samdrætti í margar vikur núna og var búin að þurfa að vera heima, rúmliggjandi að mestu, í mánuð til þess að passa að litli gutti kæmi ekki of snemma í heiminn. Við fórum yfir 37 vikna markið þann fyrsta janúar og nú átti litli kall að vera kominn!

Laugardaginn 9. janúar fara Lilja og María í IKEA og labba og labba og labba (að mati Maríu allavegana sem er búin að vera kjurr í mánuð), en það er bara gott því kannski kemur þetta fæðingunni af stað. Þær setjast niður í nýja IKEA kaffihúsinu og María fær sér sterka Indverska kjúklingasúpu. Þegar þær eru svo á leið heim hitta þær Rín á bílastæðinu, en hún og maður hennar Bjarni höfðu einmitt verið í mat hjá okkur kvöldið áður. Rín spyr hvort María sé ekki að fara varlega en María neitar því, nú skal barnið koma og er hún því búin að rölta allt IKEA endilangt! Rín óskar Maríu góðs gengis og ekki frá því að það hafi virkað með 🙂

Um kvöldið er svo matarboð hjá ömmu Steinu og afa Frikka og planið að Róbert fái að gista hjá þeim þessa helgi. Í matinn er dýrindis (glaður) hryggur og njótum þess í botn. Þegar Kári og María eru komin heim er farið í göngutúr (kannski gerist þá eitthvað?) og svo er horft á Fargo, seríu 1, til klukkan 2 um nóttina. Það var erfitt að hætta því við vorum alveg að verða búin með seríuna og þurftum að sjálfsögðu að klára!

Þegar María og Kári eru komin upp í rúm finnur María að það eru einhverjir samdrættir í gangi, þessir venjulegu sem eru búnir að vera í gangi í nokkrar vikur. Hún nær ekki að sofna vegna þeirra og klukkan 4.30-5.00 er hún komin á fætur og byrjuð að rölta um íbúðina til þess að halda þeim gangandi og finnur að samdrættirnir eru að styrkjast. Milli 5.30 og 6.00 vekur María Kára og biður hann um að vera með sér, samdrættirnir eru orðnir nokkuð harðir og María þarf á góðri hendi til að kreista. Kári byrjar að mæla á milli, en María vill ekki vita nákvæmlega hversu stutt er á milli og frekar einbeita sér að verkefninu framundan. Það er strax frekar stutt á milli eða um 2-3 mínútur. María og Kári ræða fram og tilbaka hvort þau eigi að hafa strax samband við ljósmæðurnar, en María vill leyfa þeim að sofa til að minnsta kosti 7. Klukkan 6.40 eru þó samdrættirnir orðnir þannig að Kári vill hringja, það gæti alveg verið að þessi fæðing gerist hraðar en sú fyrri. Hrafnhildur svarar og þær eru nú báðar í startholunum. Nokkrum mínútum seinna eða klukkan 6.50 fer þó vatnið hjá Maríu, Kári lætur Hrafnhildi vita af því og hún og Arney ákveða að koma, 7.20 er Arney mætt og stuttu seinna líka Hrafnhildur.

Hrafnhildur mætt

Hrafnhildur mætt

María hringir í afa Finn, en hann eða amma Hrefna ætluðu að taka nokkrar myndir í aðdraganda fæðingarinnar. Afi Finnur er þó því miður kvefaður og spyr hvort amma Hrefna megi ekki koma í staðin. Jú, alveg sjálfsagt! Hún er svo komin til okkar um 8.00.

Kári fer í það að pumpa upp fæðingarlaugina og er langt kominn þegar Hrafnhildur og Arney eru mættar. Þau hjálpast svo að við að fylla laugina með vatni.

Laugin tilbúin!

Laugin tilbúin!

Kári heyrir í afa Frikka og ömmu Steinu og lætur vita að nú sé litla Baun á leiðinni. Við ákváðum að leyfa Róberti sjálfum að ákveða hvort hann vilji frekar vera áfram hjá ömmu og afa eða koma heim og vera viðstaddur fæðingu litla bróðurs. Kári talar við Róbert sem finnst meira spennandi að fara og gefa öndunum brauð heldur en að sjá litla bróður fæðast, hann geti séð hann seinna 🙂 Kári hringir líka í ömmu Guðrúnu og lætur vita að nú sé allt komið af stað.

Vatnið nýfarið og að sjálfsögðu var sent snap á alla! ;)

Vatnið nýfarið og að sjálfsögðu var sent snap á alla! 😉

Legvatnið heldur áfram að leka og hríðarnar harðna. María prófar að fara í laugina og ji, hvað það er gott! Það var því miður engin laus laug þegar við mættum á spítalann þegar Róbert fæddist og María saknaði þess mikið. Einn af kostum þess að eiga heima, það er alltaf laus laug 😉

MB0A3548-51

Klukkan 10 biður María ljósmæðurnar að gera innri skoðun, svo við vitum fyrir víst að það sé allavegana eitthvað að gerast. Jújú, 7 til 8 cm í útvíkkun. Arney finnur einnig í skoðuninni að það er belgur með vatni fyrir framan kollinn, það er sem sagt ekki það vatn sem hefur verið að leka hjá Maríu, heldur kemur það einhverstaðar ofar úr belgnum.

María heldur nú áfram að labba um íbúðina og anda sig í gegnum hríðarnar. Kári er nálægt og styður konu sína. Hrefna er heldur aldrei langt undan og þegar María þarf tvær hendur til þess að kreista eða þegar Kári þarf að fara á klósettið eða fá sér kaffi tekur Hrefna við stuðningshlutverkinu. Af og til kemur Arney og mælir hjartslátt litla kalls og blóðþrýsitng Maríu.

MB0A3572-51

Við ytri skoðun kemur í ljós að Baun snýr sennilega ekki rétt. Bakið á að snúa meðfram bumbunni og andlitið inn á við, en hann er að öllum líkindum akkurat öfugt eða einhvernvegin til hliðanna. Þegar klukkan nálgast 11 reyna Hrafnhildur og Arney að snúa honum rétt. Þetta er gert með því að hrista undir bumbunni og mjaðmirnar á Maríu með teppi eða sjali, á meðan María liggur fram á við.

Njóta sólarupprásarinnar á milli hríða

Njóta sólarupprásarinnar á milli hríða

Hríðarnar halda áfram og María heldur áfram að rölta. Þegar klukkan nálgast 2 er María orðin mjög þreytt. Á þremur tímum hefur nánast ekkert breyst, en hríðarnar hafa samt verið nokkuð strembnar. Það tók líka dálítið sálrænt á að allt þetta erfiði hafði ekki skilað neinu. Arney stingur því upp á annarri innri skoðun einhverntíman á næstunni til að sjá hvernig staðan er. María er til í að gera innri skoðun strax. Ef fæðingin heldur áfram að vera í þessari bið þarf að skoða hvort við þurfum að fara upp á spítala og fá hríðörvandi lyf. Við innri skoðun kemur í ljós að Baun er enn að stríða okkur og snýr ekki alveg rétt. Belgurinn með vatninu sem liggur fyrir framan höfuðið er enn til staðar og ljósmæðurnar spurja hvort við myndum vilja gera belgrof. Við það mun hausinn detta neðar í grindinni og gæti snúist við í leiðinni þannig að hausinn snúi aftur og bakið fram. Okkur lýst vel á það, enda til í að reyna allt sem hægt er á meðan við erum heima. Við erum ekkert gríðarlega spennt fyrir spítalaheimsókn þennan dag þannig að ef þetta gæti virkað þá erum við meir en til í að prófa.

10 mínútur í 2 er gert belgrof og viti menn! Það virkaði! Hríðarnar verða mjög sterkar og María byrjar að finna fyrir rembingsþörf. María reynir eins og hún getur að rembast mjúklega með hríðunum til þess að minnka líkurnar á að rifna (það er hægt að æfa þetta á klósettinu, fyrir þá áhugasömu 😉 ). María er á hnjánum upp í rúmi og liggur ofan á púða, Hrefna er vinstra megin við hana og Kári hægra megin. María nær að kreista á þeim puttana hressilega í hverri hríð, en núna eru þær orðnar mjög öflugar.

MB0A3583-51

Klukkan hálf þrjú leggst María á hægri hliðina og heldur í vinstri ökklann sinn, Kári hjálpar Maríu að halda fótnum uppi. Korteri seinna sjá ljósmæðurnar kollinn gægjast fram 🙂

Arney fylgist vel með

Arney fylgist vel með

20 mínútum eftir það og mörgum öskrum seinna fæðist kollurinn, eða klukkan 5 mínútur yfir 3. María trúir því hreinlega ekki að þetta hafi tekist! Sársaukinn var gríðarlegur og var María alveg viss um að hafa rifnað hressilega, enda heyrðust öskrin örugglega út um allt hverfið 🙂 Ekkert bólar þó á næstu hríð til þess að klára fæðinguna og ljósmæðurnar spurja Maríu hvort hún vilji fara aftur á hnén? María er til í það enda finnur hún að þá komi hríðin. Sem hún og gerði stuttu seinna og litla Baunin okkar er loksins fædd! Arney réttir Maríu hann milli fótanna og við bara trúum því ekki að hann sé kominn! Hann grætur hressilega og léttirinn sem við finnum, ekki síst María, er ótrúlegur. Þarna er hann! Hann er kominn! Og hann er til! Við vissum að við ættum von á barni, en á sama tíma þá bjuggumst við einhvern veginn ekki alveg við að við ættum eftir að eignast barn. Við bara trúðum þessu ekki! Og hversu fullkominn?!

Hann er fæddur! :D

Hann er fæddur! 😀

Eins og í síðustu fæðingu þá er afskaplega fúlt og óréttlátt að fæðingin skuli ekki vera búin þegar barnið er fætt. Loksins, loksins er barnið komið og maður þarf að halda áfram að rembast? Og finna sársauka. En fylgjan fæðist nokkrum mínútum á eftir litla kall og gekk það nú bara ágætlega. En svo gengur leginu ekki eins vel að búa til samdrætti og skila öllu út. María fær því sprautu sem eykur á samdrætti og virkar hún vel. Svo þarf að skoða rifurnar, en María rifnaði alveg þótt ekki nærri eins mikið og þegar Róbert fæddist. Ljósurnar skoða þetta allt vel og staðfesta að hægt sé að sauma heima, þetta sé ekki það mikið, hjúkk!

Þreytt María

Áður en sú vinna hefst þó fer litla Baun á brjóst sem hann gerir með glæsibrag! Ótrúlegt hvað þau ná að læra að sjúga vel í bumbunni. Það er svo ekki fyrr en hálftíma eftir fæðingu, 20 mínútur í 4, sem Kári klippir naflastrenginn. En þá er fylgjan löngu fædd og sláttur hættur í strengnum.

MB0A3663-51

Nú kveður Hrefna okkur, eftir að hafa tekið síðustu myndina: af Kára klippa naflastrenginn. Eftir saumaskapinn eigum við foreldrarnir og nýi fjölskyldumeðlimurinn kósý tíma upp í rúmi. Ljósmæðurnar eru áfram hjá okkur og fylgjast með og ganga frá öllu. En við höldum áfram að stara á litla molann okkar með stjörnur í augunum og getum ekki hætt að dást að litla kraftaverkinu okkar 😀

MB0A3669-50

Áður en við vitum af er klukkan að nálgast 6 og Róbert er kominn heim ásamt afa Frikka, ömmu Steinu og Báru frænku. Róbert er spenntur að sjá litla bróðir en vill nauðsynlega segja okkur sögu fyrst 🙂 Svo kemur hann upp í rúm og fær að skoða þann litla. Hann er afskaplega hrifinn af honum og skoðar vel eyrun, naflastrenginn og fær aðeins að klappa honum.

Þegar við lítum tilbaka á fæðinguna þá finnum við til mikillar gleði og þakklæti. Þetta var yndisleg fæðing, þótt hún hafi verið erfið á köflum, og svo mikill lúxus að hafa fengið að eiga heima, að hafa fólkið sitt með sér og hafa þær ljósmæður með okkur sem við vorum búin að kynnast og velja fyrirfram. Við gætum ekki verið ánægðari með þessa yndislegu fæðingu 😀

Auglýsingar