Róbert í sjónvarpinu


Við vorum vandræðalega lengi að finna út úr því hvernig við ættum að ná þessu litla broti af Róberti í sjónvarpinu. Höfum sjaldan haft eins mikið fyrir 13,43 sekúndum :p En ji, minn eini barnið er svo mikið krútt! Við vildum sko eiga þetta 😀

En Róbert var svo heppinn að fá að taka þátt í „Dag Rauða Nefsins“ átaki Unicef í ár (ég ætla nú rétt að vona að allir sem eru að lesa og geta séð nokkrum krónum aflögu í mánuði séu Heimsforeldrar, ef ekki þá tékkið á því hér!)

Hér er svo krúttmolinn

Auglýsingar

Ekki dýr í matinn, takk!


Róbert er í baði og lítil fluga ákvað að verða honum samferða. Róbert kallar á mömmuna sína en hann er kominn með fluguna í hendi sína og vill reyna að bjarga henni. Það vita allir að flugur drukkna bara í baði. Við hefjum björgunaraðgerðir með klósettpappír sem við reynum mjög mjög varlega að þurrka vængina með, blásum svo ofurvarlega og fylgjumst með henni. Hún sýnir lífsmörk og er niðurstaðan okkar sú að nú þurfi hún hvíld. Hún fær sjúkrabedda á vaskborðinu inn á baði. Lífið heldur sinn vanagang.

Um kvöldið er Róbert kominn upp í rúm. María fer að athuga með hann, en alveg viss um að hann sé nú sofnaður. Svo er svo sannarlega ekki en drengurinn liggur með ekkasog og koddinn rennblautur af tárum. María fyllist skelfingu og spyr snáða hvað sé að?

„Það má ekki borða dýrin, þau vilja lifa!“ og svo grætur drengurinn. Það tók okkur foreldrana 2 klukkutíma að hugga barnið. Niðurstaða kvöldsins var að hann þyrfti alls ekki að borða dýrin, það myndi enginn fá að þvinga hann til þess, og við myndum hjálpa honum í þessu, læra að elda grænmetisrétti og María yrði honum til samlætis í þessu öllu saman.

Þetta var 13. febrúar 2017 og enn vill barnið ekki borða dýr (hann leyfir sér eitt svindl: pepperóní á pizzu, en það eru líka svín og þau eru ekki ÞAÐ sæt. Fyrir utan þetta þá borðar hann hvorki spendýr, fugla né sjávardýr. María hins vegar leyfir sér fisk og kjöt einstaka sinnum á hátíðisdögum). Við foreldrarnir ætluðum að hefja 30 sykurlausa daga daginn eftir og var því matur allt í einu orðinn mjög strembinn! Sykurlausi tíminn styttist um 28 daga og við einbeittum okkur að grænmetisfæðinu.

Flóknast fannst okkur að finna nesti í skólann fyrir Róbert. Okkur datt ekki margt í hug sem var saðsamt, gott, hollt og ekki of flókið fyrir 6 ára til þess að útbúa sjálfur í matartímanum.Oft hefur þetta orðið brauð, jógúrt eða þess háttar sem okkur finnst ekki nægilega næringaríkt. Við höfum enn ekki fundið fullkomna lausn á þessu.

Annars hefur þetta gengið ágætlega heima fyrir. Við notum oft baunir í stað kjöts og höfum jafnvel tvær útgáfur af matnum: ekki kjöt fyrir Róbert og Maríu og kjöt fyrir Kára og Frikka Lóa (sem vill eiginlega ekkert nema kjöt). Helsti gallinn er að fólk er eiginlega alveg hætt að bjóða okkur í mat. Sem er algjör synd því María er alveg til í bara smá salat og kartöflur þótt allir aðrir séu að borða kjöt. Hún mætir hvort eð er bara fyrir eftirréttinn…

Róbert er líka sáttur með þetta allt saman. Það sem honum fannst erfiðast fyrst voru allar þessar spurningar frá fólki; hann er ekki athyglissjúkur drengurinn. Annars er hann lítið að velta sér upp úr þessu. Við foreldrarnir erum hins vegar að rifna úr stolti! Ekki endilega fyrir akkurat þessa ákvörðun, heldur að hann hafi fundið þetta með sjálfum sér og tjáð tilfinningar sínar gagnvart þessu og svo staðið með sjálfum sér! Ekki sjálfgefið hjá blessuðum börnunum.

Litli snigill


Elsku, elsku Róbert okkar er einstaklega utanvið sig. Svo mikið að hann getur alveg gleymt því að hann sitji á klósettinu og eigi að vera skeina sér. Hann getur gleymt því í 60 mínútur þess vegna. Athugar maður hvað sé að tefja hann svona svakalega, þá situr hann bara þar og er að hugsa um daginn og veginn, líklega er hann með eina eða tvær spurningar, svo sem hvaða plánetur í sólkerfinu okkar séu brúnar og hvort við þyrftum nokkuð að drepa mýsnar ef til kæmi að ein myndi læðast inn til okkar.

Það hefur aldrei nokkurn tíman verið erfitt fyrir Róbert að lifa í núinu. Hann gerir satt best að segja lítið annað. Þessi hugsun sem flest okkar eru með „núna er ég komin í úlpuna, hvað geri ég næst? Jú fara í skónna“ er ekki til hjá Róberti, það er ekkert „næst“ í hans huga og lítið skipulag í öllum daglegum athöfnum. Hjá flestum okkar myndast þetta skipulag sjálfkrafa við allar þær athafnir sem við erum að gera aftur og aftur, eins og að fara á klósettið, morgun- og kvöldrútína, klæða okkur í föt og svo framvegis. Þetta virðist ekki vera Róberti eðlislægt. Við höfum haft áhyggjur af þessu í nokkurn tíma og rætt þetta við bæði leikskóla- og skólastarfsfólk. Við höfum þó ekki mætt miklum skilningi hvað þetta varðar, fyrr en núna.

Róbert hefur verið í langtímarannsókn um líðan ungra barna. Í síðustu könnun komu í ljós nokkur atriði sem sálfræðingurinn vildi skoða frekar. Okkur foreldrunum var boðið að koma í viðtal þar sem við svöruðum nokkrum skimunarlistum, þar á meðal ADHD-lista. Það kom okkur ekki að óvart að hann hafi skorað hátt á því skimunarprófi. En það telst nokkuð líklegt að hann sé með athyglisbrest án ofvirknis, en hann á þó eftir að fara í greiningu og því ekki um neina lokaniðurstöðu að ræða. Þetta er þó allt í ferli og er okkur foreldrunum alveg ofboðslega létt. Ekki síst að fá að tala við sérfræðing sem vissi nákvæmlega hvað við vorum að tala um, ýtti þessu ekki til hliðar og hlustaði! Við svifum út frá viðtalinu við sálfræðinginn, við vorum svo ánægð!

Róbert með umsögnina frá kennaranum sínum „Róbert Leví er rólegur og ljúfur strákur. Hann leggur sig fram við að gera sitt besta og er duglegur að vinna verkefnin sem fyrir hann eru lögð. Róbert Leví á stundum erfitt með að einbeita sér en þegar honum er bent á að halda áfram með verkefnið tekur hann því vel. Róbert Leví er góður félagi vina sinna og honum gengur vel að vinna með öðrum í hóp. Róbert Leví var duglegur að æfa sig að lesa í vetur og ef hann les á hverjum degi í sumar á honum eftir að fara mikið fram. Það er búið að vera ánægjulegt að kenna Róberti Leví, það er gott að hafa strák eins og hann í bekknum. Þakka þér fyrir veturinn Róbert Leví minn.“

Það getur verið erfitt að vita með fyrsta barn hvað er eðlilegt og hvað ekki. Eru ekki öll 4, 5 og 6 ára börn utanvið sig? Jú, elsku blessuðu álfarnir, þau eru það. Við vitum enn ekki alveg hvað er eðlilegt varðandi Róbert og hvað ekki. Hvað gæti verið athyglisbrestur sem mun há honum áfram og hvað sé fullkomlega eðlilegt og mun eldast af honum. Á hvaða sviðum þurfum við að hjálpa honum sérstaklega og hvað er fullkomlega eðlilegt og lærist með tímanum?

Það er ekki víst að allir sem lesa þetta þekki Róbert vel og finnst okkur við því þurfa að taka það fram að Róbert er mjög klár strákur (okkar háða mat allavegana 🙂 ) Athyglisbrestur segir ekkert til um gáfur eða þroska. Hann getur verið lengi að svara spurningum, enda þarf hann að velta málunum fyrir sér frá öllum hliðum og stundum týnist hugurinn á leiðinni. Stundum svarar hann bara alls ekki, gleymir því til dæmis að segja bless, því hugurinn er kominn allt annað. Við höfum áhyggjur af því að fólk upplifi hann sem tregan eða heimskan vegna þessa. Ekki þannig að álit annarra skipti okkur máli, hins vegar erum við hrædd um að hann fari að upplifa sig sem heimskan og fari að trúa því að hann geti ekki hluti af því að aðrir telji hann ekki geta hluti.

En við ætlum ekki að hafa of miklar áhyggjur af því en viljum þó hafa þetta bak við eyrað. Sem betur fer erum við með lífs lifandi dæmi um frábæran einstakling sem lifir góðu lífi sem fullorðinn einstaklingur með ADHD án ofvirknis 😉 Hann elsku mússí mússí Kári okkar 😀

Fyrsti skóladagurinn… og sá síðasti


Fyrsti dagurinn:

Þegar Róbert hóf sinn fyrsta dag í skóla skrifuðum við foreldrarnir nokkur orð um tilfinningar okkar þennan dag. Einhverra hluta vegna birtum við þær aldrei en þetta er það sem var að gerjast í kollinum okkar þennan dag:

Þetta var furðulegt tilfinning í morgun. Við foreldrarnir röltum með stór stóra (en samt litla) strákinn okkar í fyrsta sinn í skólann. Næstu 10 árin verður hann þarna; gleði, sorg, hlátur, reiði, tap og sigrar framundan. Okkur finnst þetta gríðarlega stórt skref og höfum í gríni sagt frá því hann fæddist „já, bráðum byrjar hann í skóla!“ Sem er alveg satt því tíminn líður svo ógúrlega hratt. En nú er komið að þessu. Með von í hjarta um að þarna eigi hann eftir að eiga fullt fullt af góðum minningum (og miklu miklu fleiri góðar en slæmar) löbbum við saman með stóra strákinn okkar í skólann.

Á skiltinu stendur: Fyrsti dagurinn minn í „fyrsta bekk“. Ég er „5“ ára. Þegar ég verð stór vil ég vera „Veit það ekki (kannski tölvukall)“

Síðasti dagurinn:

Nú er Róbert að klára fyrsta bekk. Vá hvað tíminn var fljótur að líða. Okkur finnst hann vera mikið stærri núna en hann var fyrsta daginn. Hann labbar alltaf sjálfur í skólann, og svo stundum hringir hann í okkur (úr eigin símaúri) í lok skóladags og segist vera kominn til Stefáns (eða Atla, eða Hlyns, eða Þórhalls) og spyr hvort hann megi ekki vera þar áfram. Hann er mun frjálsari en hann var og virðist njóta þess.

Við, að Róbert meðtöldum, höfum dálítið blendnar tilifinningar gagnvart skólanum sjálfum. Megnið af árinu virðist honum hafa liðið vel, en þó hafa komið tímabil þar sem allt virtist ómögulegt og Róbert verið áhugalaus um bæði námið og félagsskapinn. Sem betur fer hefur þetta þó aðeins verið tímabil og hefur hann náð sér á strik nokkuð fljótt. Róbert er almennt mjög fróðleiksfús og vill skilja ALLT í kringum sig og spyr því mikið, mjöööööög mikið (nei, nei, við erum ofurmannlegir foreldrar og verðum aldrei þreytt á því 😉 )

Ótrúlegt en satt þá hefur dægradvölin reynst okkur og Róberti erfiðust. Hann hefur jú ekki gaman af asa en á dægradvölinni eru yfir 100 börn alla jafna dreifð um 3 – 4 herbergi. Fyrir vikið er oft mikill hamagangur, en í þannig aðstæðum virðist Róbert síður ná tengingu við hin börnin, og leikur sér frekar einn í rólegheitunum. Hann er þó sífellt duglegri að hitta vini sína utan skóla, og ef hann mætti velja gerði hann líklega fátt annað.

Róbert hefur náð mun betri tökum á lestrinum en við þorðum að vona, en það tók hann smá tíma að læra stafina. Hann er að öllum líkindum með athyglisbrest (komum að því síðar), og það getur verið full vinna að halda honum við efnið þegar hann á að gera eitthvað. Líklega er það skýringin á því að bækurnar sem hann vann við í kennslustundum eru margar hverjar hálftómar. Þegar hann hefur haldið einbeitingu hefur hann þó sýnt okkur að hann er mjög flinkur.

Róbert á síðasta degi skólaársins

Þetta er þó bara rétt að byrja, 9 ár to go! (+3+3+2+5=doktor) 😀

Fögnum fjölbreytileikanum!


Fengum póst frá skólanum í dag:

Á morgun, þriðjudaginn 21. mars, ætlum við í 1. Blástjörnu [1. bekk], að fagna fjölbreytileikanum og mæta í sitthvorum sokknum.

Það vill nú bara svo til að Róbert okkar fagnar fjölbreytileikanum flesta daga og mætir sjaldan, ef einhverntíman, í samstæðum sokkum 😂

Svona fór hann í skólann í morgun:

Morgnarnir hjá okkur – alltaf!


Ég: Róbert þú ert að verða of seinn! Vertu fljótur!
Róbert: ég ER að drífa mig.. *stendur alveg kjurr og horfir á fæturnar sínar sem er ekki enn komnir í sokka þrátt fyrir 50 áminningar*
Ég: einmitt..

Peningur til þín peningur til mín


Við fengum nokkra jólapakka frá Róberti þetta árið en það sem bræddi okkur mest var þetta:


915 krónur og svo sætasta jólakort sem við höfum fengið 😀

Með gjöfinni fylgdi skilaboðin að við mættum gera hvað sem er með peninginn en mætti líka fara upp í húsið, sagt og gert, peningurinn fer upp í húsið 😀 elsku barn ❤

Afmælisbréf til Róberts


Elsku Róbert okkar,

Þú ert 6 ára í dag! Við erum að skrifa þér bréf í 7:unda sinn og í fyrsta skiptið fáum við að lesa bréfið fyrir þig á afmælisdaginn þinn, við höldum að þú sért orðinn nógu stór í það. Og ef þú hefur áhuga þá getum við lesið öll hin 6 bréfin fyrir þig.

Það sem við viljum segja þér á 6 ára afmælisdaginn þinn er hvað þú ert frábær manneskja! Það eru svo mikil forréttindi (veistu hvað það þýðir?) að fá að vera foreldrar þínir, við erum í alvörunni ekki að trúa því að við höfum fengið einmitt þig, besta barn í heimi! (Ásamt Frikka Lóa)

Þú ert alveg einstaklega góður stóri bróðir, þú passar svo vel upp á þann litla! Stundum, upp úr þurru, stendur þú upp og gefur honum knús og koss, bara af því bara J

Þú byrjaðir í fyrsta bekk á árinu og ert að brillara, höldum við. Þú ert allavegana mjög spenntur fyrir skólanum og öllu því sem þú ert að læra. Við erum mjög ánægð með það. Þú ert líka rosalega duglegur að læra alla stafina. Skólinn er reyndar að kosta okkur ansi margar húfur og vettlinga, þar eintökin berast ekki alltaf heim. En það er nú bara þannig, það lærist vonandi líka.

Við hlökkum til að fagna með þér afmælinu í dag! Þú vilt fá að fagna með pulsum í kvöldmatinn og við skulum sko sjá til þess að svo verði.

Við elskum þig!

Mamma og pabbi