Fyrsti skóladagurinn… og sá síðasti


Fyrsti dagurinn:

Þegar Róbert hóf sinn fyrsta dag í skóla skrifuðum við foreldrarnir nokkur orð um tilfinningar okkar þennan dag. Einhverra hluta vegna birtum við þær aldrei en þetta er það sem var að gerjast í kollinum okkar þennan dag:

Þetta var furðulegt tilfinning í morgun. Við foreldrarnir röltum með stór stóra (en samt litla) strákinn okkar í fyrsta sinn í skólann. Næstu 10 árin verður hann þarna; gleði, sorg, hlátur, reiði, tap og sigrar framundan. Okkur finnst þetta gríðarlega stórt skref og höfum í gríni sagt frá því hann fæddist „já, bráðum byrjar hann í skóla!“ Sem er alveg satt því tíminn líður svo ógúrlega hratt. En nú er komið að þessu. Með von í hjarta um að þarna eigi hann eftir að eiga fullt fullt af góðum minningum (og miklu miklu fleiri góðar en slæmar) löbbum við saman með stóra strákinn okkar í skólann.

Á skiltinu stendur: Fyrsti dagurinn minn í „fyrsta bekk“. Ég er „5“ ára. Þegar ég verð stór vil ég vera „Veit það ekki (kannski tölvukall)“

Síðasti dagurinn:

Nú er Róbert að klára fyrsta bekk. Vá hvað tíminn var fljótur að líða. Okkur finnst hann vera mikið stærri núna en hann var fyrsta daginn. Hann labbar alltaf sjálfur í skólann, og svo stundum hringir hann í okkur (úr eigin símaúri) í lok skóladags og segist vera kominn til Stefáns (eða Atla, eða Hlyns, eða Þórhalls) og spyr hvort hann megi ekki vera þar áfram. Hann er mun frjálsari en hann var og virðist njóta þess.

Við, að Róbert meðtöldum, höfum dálítið blendnar tilifinningar gagnvart skólanum sjálfum. Megnið af árinu virðist honum hafa liðið vel, en þó hafa komið tímabil þar sem allt virtist ómögulegt og Róbert verið áhugalaus um bæði námið og félagsskapinn. Sem betur fer hefur þetta þó aðeins verið tímabil og hefur hann náð sér á strik nokkuð fljótt. Róbert er almennt mjög fróðleiksfús og vill skilja ALLT í kringum sig og spyr því mikið, mjöööööög mikið (nei, nei, við erum ofurmannlegir foreldrar og verðum aldrei þreytt á því 😉 )

Ótrúlegt en satt þá hefur dægradvölin reynst okkur og Róberti erfiðust. Hann hefur jú ekki gaman af asa en á dægradvölinni eru yfir 100 börn alla jafna dreifð um 3 – 4 herbergi. Fyrir vikið er oft mikill hamagangur, en í þannig aðstæðum virðist Róbert síður ná tengingu við hin börnin, og leikur sér frekar einn í rólegheitunum. Hann er þó sífellt duglegri að hitta vini sína utan skóla, og ef hann mætti velja gerði hann líklega fátt annað.

Róbert hefur náð mun betri tökum á lestrinum en við þorðum að vona, en það tók hann smá tíma að læra stafina. Hann er að öllum líkindum með athyglisbrest (komum að því síðar), og það getur verið full vinna að halda honum við efnið þegar hann á að gera eitthvað. Líklega er það skýringin á því að bækurnar sem hann vann við í kennslustundum eru margar hverjar hálftómar. Þegar hann hefur haldið einbeitingu hefur hann þó sýnt okkur að hann er mjög flinkur.

Róbert á síðasta degi skólaársins

Þetta er þó bara rétt að byrja, 9 ár to go! (+3+3+2+5=doktor) 😀

Auglýsingar

Afmælisbréf til Róberts


Elsku Róbert okkar,

Þú ert 6 ára í dag! Við erum að skrifa þér bréf í 7:unda sinn og í fyrsta skiptið fáum við að lesa bréfið fyrir þig á afmælisdaginn þinn, við höldum að þú sért orðinn nógu stór í það. Og ef þú hefur áhuga þá getum við lesið öll hin 6 bréfin fyrir þig.

Það sem við viljum segja þér á 6 ára afmælisdaginn þinn er hvað þú ert frábær manneskja! Það eru svo mikil forréttindi (veistu hvað það þýðir?) að fá að vera foreldrar þínir, við erum í alvörunni ekki að trúa því að við höfum fengið einmitt þig, besta barn í heimi! (Ásamt Frikka Lóa)

Þú ert alveg einstaklega góður stóri bróðir, þú passar svo vel upp á þann litla! Stundum, upp úr þurru, stendur þú upp og gefur honum knús og koss, bara af því bara J

Þú byrjaðir í fyrsta bekk á árinu og ert að brillara, höldum við. Þú ert allavegana mjög spenntur fyrir skólanum og öllu því sem þú ert að læra. Við erum mjög ánægð með það. Þú ert líka rosalega duglegur að læra alla stafina. Skólinn er reyndar að kosta okkur ansi margar húfur og vettlinga, þar eintökin berast ekki alltaf heim. En það er nú bara þannig, það lærist vonandi líka.

Við hlökkum til að fagna með þér afmælinu í dag! Þú vilt fá að fagna með pulsum í kvöldmatinn og við skulum sko sjá til þess að svo verði.

Við elskum þig!

Mamma og pabbi

ilæmfA Róberts


Í dag býður Róbert ömmum sínum, öfum og nærfjölskyldu i kaffi i tilefni af komandi 6 ára afmæli. Hann er að deyja úr spenningi þegar hann vekur okkur um átta og dregur pabba sinn fram til þess að sýna hvað hann er búinn að skrifa á töfluna:

Einstaklega vel gert hjá gutta sem kunni fáa stafi fyrir þrem mánuðum. Og jafnvel enn meira aðdáunarvert þar sem það þurfti spegil til að þetta kæmi rétt út. Hér er mynd beint af töflunni:

(Hér er hann að vísu búinn að endurskrifa seinustu tvo stafina, en hann ætlaði að stroka allt út því þetta var ekki 100% rétt. Sem betur fer náðu foreldrar hans að fá hann af því).

Fyrsti dagur leikskólans og sá síðasti


Hér er Róbert á leiðinni í fyrsta daginn sinn á leikskóla, ágúst 2012

Hér er Róbert á leiðinni á leikskóla í fyrsta sinn, ágúst 2012

Hér er Róbert á leiðinni í leikskóla í síðasta sinn, júlí 2016

Hér er Róbert á leiðinni í leikskóla í síðasta sinn, júlí 2016

Myndatökubaktería Róberts og Spjarardagbók


Eins og þeir sem þekkja Maríu vita þá hefur hún í gegnum tíðina verið ansi iðinn við að taka myndir (ekki síst á menntaskólaárunum þegar hún fékk viðurnefnið María myndavél, enda alltaf með myndavélina á lofti, engir smartsímar þá!).

20160618_135719

Svo virðist sem Róbert hefur erft þennan áhuga, en hann náði að taka 177 myndir á tveimur tímum þegar við heimsóttum Spjör um daginn. Það er virkilega gaman að fara yfir þessar myndir og sjá heiminn svolítið út frá Róberti. Hér fyrir neðan eru nokkrar myndir eftir hann (alveg hráar, við vildum ekkert breyta þeim) og í leiðinni smá dagbók eftir hann 🙂

Horfa á mömmu frá aftursætinu

Horfa á mömmu frá aftursætinu

Spjörin

Spjörin

Fjósið

Fjósið

Spjararvegurinn

Spjararvegurinn

Pabbi að labba

Pabbi að labba

Hrútshorn

Hrútshorn

Krummafætur

Krummafætur

Einsömul snudda

Einsömul snudda

Gosbrunnurinn

Gosbrunnurinn

Þvotturinn á snúrunum

Þvotturinn á snúrunum

Spjarará (eiginlega lækur en heitir á)

Spjarará (eiginlega lækur en heitir á)

Litli bróðir að knúsa sokk

Litli bróðir að knúsa sokk

Fiskur á veggnum

Fiskur á veggnum

Mamma að rúlla kjötbollum

Mamma að rúlla kjötbollur

Hrossafluga (sem varla sést)

Hrossafluga (sem varla sést)

Rólan

Rólan

Gosbrunnurinn settur á fullt fyrir myndina, Kirkjufell í baksýn

Gosbrunnurinn settur á fullt fyrir myndina, Kirkjufell í baksýn

Það er virkilega gaman fyrir okkur að eiga þessar myndir eftir Róbert, enda myndefni sem okkur mundi aldrei detta í hug að festa á filmu (eða þið vitið, þannig) en við vitum að verður dýrmætt þegar fram líða stundir. Við verðum allavegana ekki feimin við að lána þeim stutta myndavélina aftur og sjá hver afraksturinn verður 🙂

Bestu bræður í heimi!


Það sem þessir drengir geta brætt okkur! Við vonum svo sannarlega að þeir verði alltaf svona ljúfir við hvorn annan, elska, virða og fái að hlæja svona mikið saman 😀

Hér eru þeir tveir á spjallinu, fyrir um mánuði síðan:

Leikskólaútskrift


Þótt Róbert hafi lítið sem ekkert pælt í útskriftinni og ekki þurft að standast nein próf þá er útskrift úr leiksskóla samt sem áður ákveðin tímamót. Hann þarf að kveðja alla kennarana sem hafa leiðbeint honum og hjálpað honum að vaxa og dafna síðastliðin þrjú ár og þetta markar upphafið af skólagöngunni sem gæti orðið stór partur af lífinu hans í allt að tuttugu ár. Þetta er líka áminning fyrir foreldra hans hvað tíminn líður hratt. Kuskilíus okkar er að verða stór!

Athöfnin gékk vel. Kennararnir voru miður sín að hafa gleymt að setja Róbert aftur í fínu fötin (þau tóku hann úr þeim yfir daginn svo þau yrðu ekki skítug), en það skipti Róbert littlu máli og var reddað á milli atriða. Vikuna eftir byrjaði hann svo á Ævintýradeildinni sem er fyrir öll þau börn á leikskólanum sem eru að fara að byrja í fyrsta bekk næsta haust.

SONY DSCSONY DSCSONY DSC

Velkominn í heiminn!


Við fengum þessi æðislegu plaggöt frá Ingunni vinkonu en þessi frábæri snillingur hannaði þau sjálf 😀

20160502_125416-1

P.s. það er hægt að kaupa þessi plaggöt, frábær skírnargjöf! 😉 Látið mig endilega vita ef þið hafið áhuga.

P.p.s. Við fáum ekki greitt fyrir þessa auglýsingu, það er okkar einlæga skoðun að þetta er frábær gjöf fyrir nýbakaða foreldra 😀

Róbert hjólar!


Stórt skref í lífi Róberts: hann hjólar án hjálparadekkja! 😀

Vinur hans í stigaganginum, herra BA, bauð honum að koma með sér út að hjóla. BA kann að hjóla án hjálparadekkja og þegar Róbert sá það, þá var hvatinn mikill að geta gert það sama, sem hann og gerði 10 mínútum seinna! Við foreldrarnir náttúrulega fáranlega stolt, enda varla til barn sem hefur hjólað án hjálparadekkja svona vel 😉

Róbert hjólar með stæl og alltaf í skyrtu ;)

Róbert hjólar með stæl og alltaf í skyrtu 😉

Nokkrum dögum síðar kom þó leki í framdekkið og því hefur Róbert ekki getað æft sig frekar. En hjólið er núna í viðgerð hjá afa Finn og eigum því von á því að Róberti geti haldið áfram að æfa sig fljótlega 🙂

Fyrsta fjölskyldu Selfie-ið


Í dag er yngsta barnið okkar 100 daga gamalt (og elsta barnið okkar 1982 daga). Í tilefni dagsins tókum við fyrstu fyrsta fjöslkyldu selfie-ið. Eins og sjá má eru börnin okkar alveg jafn spennt yfir þessum merka atburði og við. Peace – out.

13016871_10154338839408646_862623819_o

Stóri bróðir passar upp á þig ❤


Friðrik Lói tekur yfirleitt daglúrana sína út á svölum en Róbert hefur ekki tekið eftir því hingað til, enda yfirleitt á leikskólanum þegar Friðrik fer að sofa. Í dag er laugardagur og eitthvað vorkenndi Róbert litla bróður fyrir að vera einn út á svölum og ákvað að veita honum félagsskap :mrgreen:

image

Róbert tók stólinn með sér út og ætlaði að passa upp á litla bróður á meðan hann svæfi

Það endist reyndar bara í mínútu og þá var hann búinn að gleyma afhverju hann var út á svölum 😛 En það er hugurinn sem skiptir máli! :mrgreen:

Foreldraviðtal


Þegar við byrjuðum á þessu bloggi fyrir (ah!) næstum 6 árum síðan var svo sjálfgefið að deila öllum upplýsingum um Róbert. Hann var jú svo lítill og ekkert af upplýsingunum sem við deildum með okkur var til þess að skammast sín fyrir. Ekki einu sinni þegar hann beit eitt barnið hjá dagmömmunni sinni, maður getur ekkert að því gert þegar maður er eins árs og einhver tekur dótið af manni! (við foreldrarnir skömmuðumst okkur að sjálfsögðu niður í hæla).

Nú þegar Róbert er orðinn eldri og fer bráðum að byrja í skóla þá erum við töluvert varari um okkur hverju við erum að deila. Þessar upplýsingar eru ekki að fara að hverfa og við viljum ekki að Róbert þurfi að skammast sín fyrir verðandi kærustu/kærasta, vinnuveitenda eða vina. Maður á rétt á sínu einkalífi, líka þegar maður er fimm ára. Að því sögðu þá viljum við svo gjarnan eiga og deila með ykkur því sem unglings/fullorðni Róbert þarf ekki skammast sín fyrir (kannski of mikils ætlast að unglings Róbert skammist sín ekki, en allavegana fullorðni Róbert). Þetta foreldraviðtal sem við áttum með kennara Róberts er pottþétt eitt af því sem hann getur ekki skammast sín fyrir.

IMG_0984 (2)

Við foreldrarnir höfum alltaf vitað að Róbert er góður strákur, sem vill öðrum vel, og gengur ágætlega að læra hluti og eignast nýja vini. Við bjuggumst þó ekki við öllu þessu hrósi og roðnuðum við hreinlega af stolti þegar kennarinn var að lýsa því hversu duglegur hann er 😀 Hann á einn góðan vin, herra H, sem kennarinn sagði að „væri afskaplega ríkur að eiga svona góðan vin eins og Róbert.“ Það sé aldrei kvartað undan honum og hún mundi nú ekki eftir því að hafa nokkurn tíman séð hann reiðan (hmm.. hvaðan ætli það komi? Ekki Maríu allavegana 😉 ). Þegar hann verður fyrir óréttlæti bregst hann rétt við, hann leitar til annarra vina, og tilkynnir þeim sem beitti hann óréttlæti að svona vilji hann ekki láta koma fram við sig.

Þeir krakkar sem eru að byrja í skóla um haustið fá að þeyta próf sem heitir Hljómur. En það á að gefa til kynna hversu tilbúin þau eru til þess að byrja að læra að lesa og skrifa. Róbert stóð sig mjög vel, eða yfir meðallagi, sem okkur finnst æðislegt þar sem hann er fæddur seint á árinu sem við höfum haft töluverðar áhyggjur af. Hann virðist þó meir en tilbúinn. Best stóð hann sig í samsettum orðum (hvaða orð er sandur og kassi saman? Sandkassi) og hljóðgreiningu (heyrist ‘mmmm’ í mús?). Verst stóð hann sig í samstöfun, það er þegar orð eru klöppuð, til dæmis klappar maður tvisvar þegar maður segir rÓbErt.
Samtals eru 7 þættir prófaðir og stóð hann sig vel í þeim líka.

20160214_170847 (2)

Við höfum verið að velta fyrir okkur hvort Róbert gæti verið með athyglisbrest án ofvirkni, en hann kemst sjaldan í gegnum athafnir án þess að fara nokkrum sinnum af sporinu eða hreinlega gleyma því hvað hann er að gera. Ein klósettferð getur tekið hátt upp í klukkutíma. Að „drífa sig“ er hreinlega ekki til í hans orðaforða og ef maður biður hann um að vera fljótur þá yfirleitt hægist á honum því þá bætist við hugsunin „ég þarf að vera fljótur“ við allt hitt sem hann þarf að gera, eins og „ég þarf að klæða mig í sokkinn og setja hinn sokkinn í óhreinatauið.“ Kennarinn fannst það ekki ólíklegt, enda þarf að halda honum vel við efnið til þess að eitthvað gerist. Hún nefndi sem dæmi þegar þau eru að fara út þá er Róbert yfirleitt síðastur því það tekur hann talsverðan tíma að klæða sig í útifötin. Það væri þó ekki til nein úrræði eða tæki fyrir þessi börn þar sem þau eru ekki til vandræða og komast vel í gegnum öll verkefni sem eiga sér stað á leikskólanum. Við viljum þó skoða þetta betur og athuga hvað við getum gert til þess að aðstoða Róbert sem best þannig hann geti gert allar athafnir lífsins á skikkanlegum tíma 🙂