Rýni: D vítamín (Animal Parade)


Yfirleitt er Róbert alveg til í að fá sér nokkrar teskeiðar lýsi á morgnanna en við ákváðum samt að prófa sérstakar töflur ætluðum börnum sem eru stútfullar af D-vítamíni (500 IU* hver tafla). Eftir að við Kári las sér til um ótrúlegan og almennan D vítamín skort hjá Vestrænum þjóðum ákváðum við að margfalda D vítamin skammtinn okkar, sérstaklega að vetri til og þegar við erum eitthvað slöpp. Það vill nefninlega svo skemmtilega til að það er töluvert erfiðara en maður heldur að fá D vítamín eitrun.

Róbert er búinn að fá sér svona töflur í nokkra daga núna og við erum rosalega hrifin af þeim! Þær eru bragðgóðar og yfirleitt biður hann strax um aðra þegar sú fyrri er búin. Töflurnar eru í laginu eins og dýr og fyrir eldri krakka er það örugglega mikið sport að fá stundum fíl og stundum tígrisdýr. Róberti er þó ekki að veita því mikla athygli.

Við keyptum þessar töflur í Lyfju á ca. 1.500,-. Í hverri krukku eru 90 töflur.

*IU: International Unit

Auglýsingar

Rýni: Vibram Fivefingers skór


Ég keypti mér nýlega þessa undarlegu skó, Vibram Fivefingers, sem hafa sér hólf fyrir hverja tá. En þeir hafa vakið mikla athygli þegar ég er í þeim. Þegar ég er í lestinni, í skólanum eða bara útá götu, þá er mjög algengt að fólk komi upp að mér og annað hvort fer að spyrja mig út í skónna eða dást að þeim. Ég ætla því að skrifa smá „review“ en einnig að segja aðeins frá því af hverju ég keypti þá (og nei, það var ekki bara til þess að vekja athygli).

Þetta byrjaði allt þegar ég fyrir tilviljun sá myndbandsauglýsingu (e. promo) á netinu þar sem Nike var að auglýsa nýja línu af skóm, Nike Free. Þegar Nike fór að tala við sumt af íþróttafólkinu sem notar Nike sögðust margir þeirra gera hluta af æfingum sínum berfættir.  Einn þjálfarinn í amerískum fótbolta (eitt af stóru liðunum) lét sína menn æfa reglulega berfætta, því hann sagði að þótt hann gæti ekki sannað það, þá væri hann viss um að spilararnir meiddust mun síður út af því. Þegar ég fór að kynna mér málið betur þá rakst ég fyrir tilviljun á þetta video um berfætta prófessorinn.

Nike Free skór

Eins og vill stundum gerast með svona hluti hjá mér, þá verð ég mjög forvitinn (lesist obsessed) og kafa enn dýpra í efnið. Ég horfði á marga fyrirlestra á netinu, las umræðuþræði, og nokkrar bækur, þar á meðal bókina „Born to run“ eftir Cristopher McCougall. Það er frábær bók og ætti í raun skilið sér umfjöllun, en hún segir frá því þegar höfundurinn, sem er blaðamaður fyrir NY times,  fer á slóðir Thamurama ættbálksins í Mexícó og uppgötvar ánægjuna í því að hlaupa. Inn í það tvinnast saga ólíkra, og oft skrítinna, hlaupara. Inn á milli talar hann um uppgötvanir mismunandi vísindamanna sem allar gefa til kynna að við séum þróuð/sköpuð/fædd til þess að hlaupa. Mjög skemmtileg bók, hvort sem þú hefur áhuga á að hlaupa eða ekki.

Í þessum „rannsóknum“ mínum komst ég meðal annars að því að…

 • það er hættulegt að hlaupa. Á hverju ári slasast um 60% af þeim sem hlaupa reglulega (samkvæmt sumum heimildum er það aðeins minna eða meira, enn alltaf fáranlega mikið). Það virðist skjóta í skökku við þá kenningu að við séum gerð til þess að hlaupa. Margir læknar og aðrir sérfræðingar ráðleggja fólki jafnvel frá því að hlaupa, því það sé bara ávísun á meiðsli. En kannski er ástæðan sú að við hlaupum vitlaust.
 • Fóturinn hefur 33 sinur og 43 bein sem gefur til kynna hann er gerður til þess að vera hreyfður. Iðjuþjálfar reyna að láta fólk ekki vera of lengi í gifsi, því þá visna vöðvarnir. Getur verið að við séum að gera það sama með því að setja fæturnar í of stífa skó?
 • Einu staðirnir á líkamanum sem hafa fleiri taugaenda eru lófarnir okkar, varirnar og „miðjan“. Þeir gefa okkur mikilvægar upplýsingar um yfirborðið sem við erum á.
 • Í þjóðfélögum þar sem fólk notar ekki skó er 5x sjaldgæfara að fólk sé með ilsig/bangsalappir/flatfætur. Þeir sem eru með flatfætur virðast ekki þjást af sömu vandamálum og vestrænir flatfrændur þeirra. Hjá sumum sem byrja að hlaupa berfættir minnkar ilsigið. Fæturnir eiga það til að verða styttri en breiðari og bilið milli tánna meira (enda eru margir skór sem ýta tánnum óeðlilega mikið saman).
 • Sérfræðingar hafa núna í einhvern tíma ráðlagt foreldrum að hafa börnin sín sem mest berfætt. Af hverju ætti það að vera öðruvísi farið með fullorðna?
 • Nýleg rannsókn sýndi að fólk sem er í þunnum sokkum (með jafngóðu gripi og fóturinn) hefur verra jafnvægi  heldur en berfætt fólk.
 • Fólk sem hleypur berfætt getur flogið með hugsunum einum saman!

Ok, það eru reyndar engar beinar sannanir fyrir seinasta punktinum. En þótt að engin nægilega stór/góð rannsókn hafi verið gerð til þess að taka allan vísindalegan vafa, þá var allt sem ég las nóg til þess að sannfæra mig. Ég ákvað þó að fara þá leið að hlaupa ekki alveg berfættur heldur að kaupa svokallaða berfættu skó. Hugmyndin á bak við þá er að

 • Hefta fótinn sem minnst þannig að hægt sé að hreyfa fótin á sem nátturulegastan hátt.
 • Hafa hælinn jafnhátt uppi og restin af fótinum, þannig að það sé auðveldara fyrir fólk að lenda „rétt“ og ekki á hælnum.
 • Engin dempun, botninn er aðeins 4 millimetrar af gúmmí, og einn millimeter af mjúku innleggi. Fóturinn hefur innbyggt dempunarkerfi ef maður notar hann rétt. Auk þess er manni „refsað“ ef maður lendir á hælnum. Prófaðu bara næst þegar þú ert inni og ekki í skóm að hoppa og lenda á hælnum. Bara að hugsa um það er óþægilegt. Þú ósjálfrátt hættir því mjög fljótt í þessum skóm.
 • Þótt að maður sé ekki berfættur, þá finnur maður miklu betur fyrir yfirborðinu. Ég jafnvel finn fyrir línunum á gangstéttinni (ný afsökun til að stíga ekki á línurnar). Þó ber að nefna að þeir sem tala fyrir því að maður eigi að vera alveg berfættur finnst versti gallinn við fivefingers að maður finnur samt ekki nógu vel fyrir yfirborðinu, og þú færð ekki nógu mikið af „upplýsingum“ (eða „sensory input“) til þess að líkaminn geti brugðist við og sjálfkrafa leiðrétt slæmt hlaupaform.
 • Sér hólf fyrir hverja tá gerir það að verkum að tánnum er ekki þröngvað saman, og skórinn þarf ekki að ýta á tærnar.
 • Nánanst eins og að vera berfættur, nema bara smá vörn gegn skít og glerbrotum.

Og þá er komið að aðalmálinu. Hvernig eru þeir svo? Í stuttu máli, miklu betri en venjulegir skór en ekki jafn góðir og ég var að vonast eftir. Núna í aðeins lengra máli. Ég hef haft vandamál frá því byrjun árs 2008 að ég fæ alltaf dofa í fótinn þegar ég labba mikið eða hleyp, og hann endist amk út daginn, stundum meira. Mjög óþægilegt og hefur fljótt drepið allar tilraunir mínar til þess að byrja að hlaupa aftur eftir það. Eftir að ég byrjaði að nota þessa skó hef ég aðeins einu sinni fengið dofa eftir það. Það var þegar ég neyddist til þess að nota gömlu skónna mína í tvo daga. Þeir eru mjög þægilegir. Þeir eiga það þó til að lykta. Yfirleitt er það ekki svo slæmt því að það er ekkert mál að skella þeim í þvottavél, og svo á ofn og öll lykt farin. Um daginn féllu þeir svo talsvert í áliti þegar að þeir slitnuðu eftir aðeins 2,5 mánuði sem ég hef átt þá. Önnur stóra táin mín stingur því aðeins út til hliðanna. Hefur lítil sem engin áhrif á hvernig þeir virka, en ég lít út fyrir að vera dáldið rónalegir núna.

Ég var dáldið hræddur áður en ég keypti þá, því að ég hef alltaf haft vandamál með fæturnar mínar og með skó. Hingað til hef ég verið með innlegg, og innanfótastyrkta hlaupaskó með miklum stuðningi og mikla dempun. Ég hef alltaf orðið mjög þreyttur, eða meira illt, fljótt ef ég stend/geng mikið. Í þessum skóm verð ég líka þreyttur, en á allt annan hátt. Mér finnst ég meira vera að styrkja eitthvað. Og án þess að geta lýst því betur þá finnst mér þetta vera náttúrulegri þreyta.  En hérna er helsta ástæðan fyrir því að þeir eru ekki jafn góðir og ég vonaðist til: Ég á það oft til að þegar ég hleyp út í búð að þá hleyp ég í raun út í búð.  Eins þegar ég er að labba einhvert þá á ég það til að skokka hluta af því. Stundum þegar ég fer út þá fer ég alveg berfættur. Það að hlaupa berfættur og í þessum skóm er ekki svipað. Það kom mér nefninlega merkilega á óvart (ég nota orðið „merkilega“ því ég hefði mátt búast við því eftir allan lesturinn) að þegar ég hleyp berfættur þá lendi ég ótrúlega létt í hverju einasta skrefi án þess að pæla í því.  Þegar ég komst að þessu þá fyrst fattaði ég hvað þetta gengur allt útá. Þegar ég er í fivefingers, þá er þetta því miður ekki eins. Ég er miklu meðvitaðri um hvernig ég hleyp, og það er einhvern vegin klaufalegra (enska orðið akward nær þessu eiginlega betur). Yfirleitt „þarf“ maður þó að vera í skóm, og ég efast um að ég sé að fara aftur í venjulega skó.

Að lokum, smá varnaðar orð. Þótt ég efist um að nokkur eigi eftir að fara hlaupa berfættur bara eftir þessa færslu þá vill ég vara fólk við að fara of geyst.  Það er sérstaklega algengt að fólk sem er í góðu formi fari sér um of og það getur auðveldlega endað í meiðslum. Liðirnir í fótunum eru vön stuðningnum. Vöðvarnir sem við eigum að nota geta verið visnaðir. Við getum verið ansi styrð eftir að vera alltaf með 5 cm háan hæl sem minnkar hversu mikið hefur teygst á vöðvunum okkar þegar við hlaupum/löbbum. Út af þessu verðum við að fara hægt í það að byrja að hlaupa berfætt. Ef þú ferð alveg berfættur, hafðu það þó í huga að það er eðlilegt að finna óþægindi í húðinni. Þú ert ekk vanur/vön að fá mikla skynjun þaðan, þannig að þetta er dáldið eins og fyrir augun að venjast því að koma út úr göngum, en einnig þarf húðin sinn tíma að aðlagast. Í raun eru margir sem mæla með því að byrja á að hlaupa alveg berfættur, því að húðin segir þér að hætta áður en þú nærð að koma þér í voða með öðrum hætti. Auðvelt er að finna á netinu prógröm til þess að hjálpa manni. Hér eru svo leiðbeiningar sem hjálpa okkur að hlaupa rétt, hvort sem við erum berfætt eða ekki. (Þetta er reyndar furðulega skemmtilegt myndband, miðað við hvað efnið virkar þurrt. En svo gæti það líka bara verið að ég sé með mjög furðulegar hugmyndir um hvað sé skemmtilegt 🙂 )

/Kári

Rýni: SKJÓL Kerru- og vagnaábreiður


Áður en Róbert fæddist gerðum við víðamiklar rannsóknir á vögnum og kerrum. Skoðuðum allt sem var í boði hérna heima og skoðuðum hverja rýnina á fætur annarri. Við enduðum á að velja þessa kerru (Graco Quattro Tour Sport). Við erum mjög ánægð með hana og notum hana mikið. Róbert elskar að sofa í þessari kerru. Helsti gallinn við hana er þó regnplastið sem fylgdi með en við áttuðum okkur aldrei almennilega á því hvernig ætti að koma því yfir kerruna. Við höfum þó séð fólk niðrí bæ með svona kerrur og sem hefur tekist að koma regnplasinu yfir þannig að það er greinilega alveg hægt.

En við rákumst svo á þessa síðu. Síðan tilheyrir konu sem heitir Heiða sem saumar ábreiður á kerrur og vagna undir merkinu „Skjól.“ Við höfðum samband við hana og létum vita af vanda okkar. Hún hefur saumað heilan helling af þessu og þekkir allar helstu kerrur og vagna og því þurftum við ekkert að mæla kerruna okkar út. Við völdum okkur efni (reyndar vildi svo heppilega til að hún átti eitthvað ódýrt efni þannig við fengum ábreiðuna okkar aðeins ódýrari. En úrvalið er svakalegt og mikið til af sætum efnum!). Heiða býr út á landi þannig að hún lætur vita þegar hún er búin að sauma skjólið, þá borgar maður henni með millifærslu og hún sendir því til manns.

Við erum búin að vera nota ábreiðuna í um ár núna og erum mjög ánægð með hana. Okkur finnst við hafa aukið notagildi kerrunnar um helming! Kerran er töluvert hlýrri með skjólinu og því ekkert mál fyrir Róbert að sofa í henni, auk þess sem hún veitir skjól fyrir veður og vind þegar við erum á röltinu niðrí bæ.

Kerran með skjólið

Svo er María (Kári tekur oft ekki eftir svona litlum smáatriðum) rosalega hrifin af því að á neðri hlutanum á opinu, framan á kerrunni, er flipi sem hægt er að smella upp eða hafa niðri. Þegar Róbert er sofandi í kerrunni höfum við opið sem minnst en þegar hann er vakandi og vill sjá út þá höfum við flipann niður. Rosalega sniðugt og eitthvað sem við bjuggumst ekki alveg við þar sem þetta er nú heimatilbúið.

Flipinn sem hægt er að hafa upp eða niður

Á heildina litið erum við mjög ánægð með vagnábreiðuna og mælum hiklaust með að þið hafið samband við Heiðu ef ykkur vantar eitthvað yfir kerruna eða vagninn ykkar. Ábreiðan hefur nýst okkur töluvert betur en við bjuggumst við.

Rýni: IKEA leikföng


Það er þó nokkuð um það að fólk dettur hingað inn af leitarvélum út af þeim fáu rýnum (e. review) sem við höfum gert hingað til. Við ætlum því að gera meira af þessu enda finnst okkur alltaf gott að geta fundið einhverjar umsagnir á netinu áður en við kaupum eitthvað.

Ikea leikföngin eru ódýr og mörg þeirra mjög góð. Hér eru rýni af þeim sem við höfum notað mikið og hafa hentað fyrir aldur Róberts (hann er núna 17 mánaða). Við eigum svo eitthvað af leikföngum sem eru ætluð eldri börnum og sem hann er ekki enn byrjaður að sýna áhuga á og því höfum við ekki reynslu af þeim. Ef til vill gerum við betri grein fyrir þeim seinna.

EKORRE vagn: við erum ágætlega hrifin af þessum, sérstaklega hvað hann er ódýr (3.990,-). Við keyptum hann upphaflega þegar Róbert var ekki enn farinn að labba og var sí og æ að biðja okkur um að halda í hendurnar á honum og styðja hann í labbi. Oft var þetta eina leiðin sem hann vildi ferðast á milli staða. Að skríða fannst honum vera orðið þreytt. En vagninn varð aldrei vinsæll samt, helst af því að hjólin á honum snúast ekki (sem er líka ágætt, þá væri hann óstöðugari) þannig Róbert gat bara ferðast fram og aftur með honum, hann var ekki með afl til þess að snúa honum í neina átt. Vagninn er vinsælli í dag þegar hann getur labbað. Nú vill hann helst setjast í honum og láta draga sig út um allt. Því miður er gripið of neðarlega fyrir okkur stóra fólkið, en það væri kannski ósanngjarnt að krefjast annars.

MULA hringpýramídi: (1.490,-) við erum mjög hrifin af þessum! Í fyrsta lagi af því að hann æfir nákvæmnishreyfingar vel og í öðru lagi af því að það skiptir ekki máli í hvaða röð hringirnir eru raðaðir. Oft með svona turna þá þarf að raða þeim í réttri röð, ef sá síðasti er settur fyrst festist hann efst og það er ekki hægt að raða fleirum hringum á stöngina. Til að byrja með getur verið erfitt að fatta þetta og því gott að byrja að æfa sig á MULA turni og svo fara í hina flóknari turna. Það sem pirrar suma með þennan turn er að efsti hringurinn (fyrir utan „hausinn“) er ekki í samræmi við hina hringina. Þannig að ef maður setur þennan turn saman án þess að hafa séð hvernig hann eigi að vera þá getur maður lent í vandræðum með hvar í röðinni hann liggur.

Mula kranabíll: (2.790,-) við fílum þennan ekki. Róbert er reyndar enn of ungur til þess að leika sér með kubbunum sem fylgir og lyfta þeim með krananum. En bíllinn keyrir ekki vel. Það er of mikill núningur þannig að hjólin snúast lítið sem ekkert. Ekki gaman.

Rýni: Moby Wrap


Moby Wrap burðarsjal:

Við höfðum heyrt ýmsa góða hluti um þetta barna burðarsjal áður en Róbert Leví fæddist og vorum því búin að fjárfesta í einum slíkum notaðan áður en hann kom í heiminn, það er mikið framboð af þessu á t.d. bland.is. Annars er hægt að kaupa svona nýtt hjá Móðurást. Gagnrýnin okkar á þessu sjali helgast svolítið af því að Róberti fannst ekkert sérstaklega gott að vera vafinn þétt upp að okkur, eða vafinn þétt yfir höfuð. Nú finnst mörgum nýfæddum börnum það mjög gott og hafa því foreldrar þeirra eflaust betri reynslu af þessu sjali en við.

Fyrsta atriðið sem við viljum nefna er að þetta sjal er rosalega langt! Svona um 4 metrar mundum við halda. Það er því ekki auðvelt að geyma það, ferðast með það eða ganga frá því á snyrtilegan hátt nema að eyða smá púðri í það. Okkar lenti oft á gólfinu og varð þar af leiðandi rykugt og þurftum því að þvo það fyrir næstu notkun. Tilgangurinn er að sjálfsögðu sá að hægt sé að binda þetta í kringum hvern sem er, sama hvað stærð viðkomandi er.

María fékk stundum í bakið af því að hafa Róbert í þessu hangandi á sér. Kannski var hún ekki að binda þetta rétt eða ekki með bak í þetta, en til lengdar tók þetta á.

Það fylgir með sjalinu leiðbeiningarbæklingur en svo er líka hægt að finna ótrúlegan fjölda myndbanda á YouTube um hvernig sé hægt að binda og festa barnið í sjalinu. Það eru til ótrúlegir möguleikar og skemmtilegt að prófa sig áfram. Það skemmtilega við sjalið er líka að hægt er að nota það lengi vel, líka þegar að barnið er orðin nokkurra ára gamalt. Við seldum okkar sjal fljótlega þar sem við sáum ekki fram á að nota það mikið enda vitum við að Róbert okkar hefur ekki þolinmæði í að haldast í slíku sjali, ekki til lengri tíma allavegana. En við mælum þó alveg með því, flest börn mundu sennilega una sér vel í Moby Wrap.

Rýni: Scream free parenting


Það sem okkur langar til þess að gera er að skrifa gagnrýnir á þær bækur sem við höfum lesið og tengjast meðgöngu og uppeldi. Það verður svo hægt að finna samansafn af gagnrýnum okkar undir flipanum „María og Kári.“ Ef allt gengur vel munum við jafnvel Rýna (e. review) í fleiri annað barnatengt dót.

Scream free parenting eftir Edward Runkel:

Við erum mjög hrifin af þessari bók. Hún leggur mikla áherslu á að sem foreldri eigi maður fyrst og fremst að einbeita sér að sjálfum sér og svo að einbeita sér að barni sínu; „putting the oxygen mask on yourself before putting it on your child“ (setja súrefnisgrímuna fyrst á sjálfan sig áður en maður setjur hana á barnið sitt), eins og bókin endurtekur sí og æ. Þegar að við öskrum á börnin okkar erum við í raun að biðja barnið um að róa okkur niður því við getum ekki róað okkur niður sjálf. Runkel leggur til að í stað þess að öskra höldum við ró okkar og gefum barninu val. Það þarf ekki að borða matinn sinn ef það ekki vill en það hefur afleiðingar (eins og allt annað í lífinu). Ef það borðar ekki matinn sinn þá fær það ekki að horfa á sjónvarpið þann daginn, eða eitthvað í þeim dúr. Höfundurinn gerir ráð fyrir því að hlustandinn að bókinni (við hlustuðum á hljóðbóksútgáfu af þessari bók) sé af því að hann eigi í vandræðum með barnið/börnin sín. Við erum þó ekki stödd á þeim stað ennþá (og vonandi aldrei) heldur var þetta fyrirbyggjandi hlustun hjá okkur. Þannig að margt af því sem höfundurinn lýsir höfum við ekki lent í ennþá. En samt viljum við meina að hún hafi gagnast okkur vel, en það kemur væntanlega í ljós á næstu árum.
Eins og með margar svona „sjálfshjálpar“ bækur er höfundurinn gjarn á að alhæfa um þann fróðleik sem hann er að kynna. Að rétta lausnin sé alltaf að halda ró sinni og framkvæma afleiðingar þegar barnið hefur hegðað sér rangt en kannski er það ekki alltaf þannig? En þetta er þó góð og gild lausn og gott að hafa það bak við eyrað, enda erum við á því að við viljum öskra sem minnst, og helst ekki neitt, á Róbert.