Heimafæðing – okkar reynsla


Við fæddum yngri strákinn okkar heima, með hjálp tveggja yndislegra ljósmæðra, þeirra Arneyjar og Hrafnhildar hjá Björkinni. Við vildum deila okkar reynslu til þeirra sem vilja skoða þennan möguleika, en hægt er að lesa fæðingarsöguna hér. Þetta byggir algjörlega á okkar reynslu, viðhorfs og óskum okkar til fæðingarinnar. Það mikilvægasta í fæðingu, að okkar mati, er að móðir finni til öryggis, hvort sem það er á spítala eða heima, og gott að velja fæðingarstað út frá því.

MB0A3570-51

Kostir:
-Heit laug: Á spítalanum eru fæðingarlaugar í einhverjum stofum, en ekki öllum. Þegar við áttum Róbert voru engar stofur með laug lausar sem olli miklum vonbrigðum því María hafði eytt miklum tíma í baðinu heima á meðan hríðunum stóð áður en uppá spítala var komið. Í heimafæðingunni gátum við hins vegar gengið að því vísu að hafa aðgang að laug, enda komu ljósmæðurnar með uppblásna laug fyrirfram sem staðsett var í svefnherberginu.
-Við þekkjum ljósmæðurnar: Þegar Róbert fæddist fórum við uppá spítala þegar María var þegar komin með 7-8 í útvíkkun og hafði verið í hríðum í meira en hálfan sólarhring. Við vissum ekkert hvaða ljósmóður við myndum fá, og fengum ekki að hitta sömu ljósmóður fyrirfram. Þær sem tóku á móti okkur voru allar mjög fínar, en svo vorum við færð af Hreiðrinu (það var enn opið þá) yfir á fæðingargang, þar sem önnur ljósmóðir tók á móti okkur. Við náðum aldrei að tengjast henni vel. Það var gríðarlega mikilvægt í okkar huga að þekkja vel þær/þá sem taka á móti barninu okkar, því samskiptin þurfa að vera einlæg og góð.
-Öruggt umhverfi: Fyrir Maríu, og okkur, er öruggasti staðurinn heima hjá okkur. Auk þess var gott að vita að við gátum á hvaða tímapunkti sem er óskað eftir því að fara upp á spítala. Miðað við það sem við höfum heyrt styðja rannsóknir það að heimafæðingar séu ekkert óöruggari en spítalafæðingar.
-Matur: Það var ekkert svo gott aðgengi að mat uppá spítala, og ekki endilega til eitthvað sem var bæði hollt og okkur að skapi. Þegar við þurftum að vera uppá spítala í hátt í 40 tíma, var það orðið frekar þreytt að geta ekki bara fengið það sem hugurinn girndist. Þegar við áttum heima áttum við afganga af hollum og góðum mat, nóg af snarli, auk þess að við vorum búin að byrgja okkup upp í frystinum af elduðum mat. Þetta atriði skipti meira máli en við áttum von á fyrir fram.
-Að vera heima eftir fæðinguna, fara beint upp í rúm og þurfa ekki að fara með lítið kríli út: Þegar littli kúturinn okkar fæddist var hann nú þegar heima hjá sér. Þvílíkur lúxus!
-Geta haft sitt fólk hjá sér, eins marga og maður vill: Á fæðingarganginum er helst mælst til að aðeins einn stuðningsaðili sé með móðurinni í fæðingu. Heima gátum við haft þetta nákvæmlega eins og við vildum. Upphaflega ætlaði stóri bróðir (5 ára Róbert Leví) að vera heima en hafa ömmu sína hjá sér til þess að sinna líkamlegum og félagslegum þörfum hans. Hann ákvað þó frekar að draga ömmu og afa niður að tjörn til að gefa öndunum brauð. Það var þó mjög þægilegt að hafa möguleikan á því. Eins var Amma Hrefna viðstödd í fæðinguinni sem stuðningsaðili nr. 2 – sem okkur fannst ekki veita af – og einnig var hún persónulegur ljósmyndari.
-Að vera við stjórnvölin: Spítalinn er alveg æðisleg stofnun; hann bjargar manslífum og læknar fólk af ýmsum kvillum. En á hinn boginn er engan vegin hægt að kalla hann cozý og haldið andliti. Ekkert, nánast, er manns eigið og okkur fannst við ekki getað gengið um og hagað okkur eins og heima hjá okkur.
-Mindset: Við upplifðum viðhorf heimaljósmæðra okkar á annan hátt en spítalaljósmæðrana, þótt það gæti hafa breyst töluvert síðan við áttum barn á spítala árið 2010. Helsti munurinn er sá að líta á fæðingar sem náttúrulegt fyrirbæri í eðli sínu en ekki sjúkdómur eða læknisfræðilegt vandamál (þótt hún geti orðið það í einhverjum tilfellum). Okkar mindset var ekki síður öðruvísi í heimafæðinguinni. Okkur fannst síður þörf á sífelldum skoðunum og mælingum. Við treystum ferlinu betur, og ákváðum að taka því sem kæmi.
-Persónuleg mæðraskýrsla: Þetta hefur kannski meira með þær ljósmæður sem við höfðum en heimafæðingar almennt, en það er mikill munur á fæðingarskýrslunum frá strákunum okkar tveimur. Í heimafæðingarskýrslunni enda þær t.d. með: „17:45: María er búin að fara á fætur, Róbert Leví stóri bróðir er kominn til að hitta litla bróður sinn, öllum líður vel eftir þessa vel heppnuðu heimafæðingu.“ Fyrri fæðingarskýrslan var hins vegar einungis læknisfræðilegt plagg.

Kósý stemning í heimafæðingu

Kósý stemning í heimafæðingu

Gallar:
-Ekkert glaðloft: Í heimafæðingum er engin lyf í boði til þess að stilla verki, heldur aðeins aðferðir sem náttúran býður uppá, svo sem öndun, slökun og nálastungur. Þegar Róbert fæddist notaðist María við glaðloft til þess að komast í gegnum verstu verkina, en hafði þó takmarkaða trú á áhrifum þess við að deyfa verki sína. Í heimafæðingunni fannst Maríu verkirnir nokkuð verri í lok fæðingar (hríðarnar framan af voru þó auðveldari), þrátt fyrir að fæðingin hafi verið, a.m.k. að utan frá séð, auðveldari með mun færri rifum. María ályktaði því sem svo, í lok fæðingar þegar sársaukinn var hvað allra mestur, að líklega hefði glaðloftið gert meira fyrir hana en hún hafði gert sér grein fyrir. Hinn möguleikinn er sá að María hafi einfaldlega verið búin að gleyma því hversu mikill sársauki fylgir því að fæða barn.

En þetta eru helstu atriðin sem við vildum nefna. Hafið þið einhverjar spurningar, ekki hika við að skrá þær hér í athugasemdum eða senda okkur tölvupóst 🙂

Auglýsingar

Fæðingadans


Ljósmæður Bjarkarinnar tóku saman myndir úr heimafæðingum sem þær hafa sinnt og settu saman í myndband með lag Svavar Knúts, Slow Dance, sem undirspil, þar eru meðal annars okkar myndir! 😀

Þetta er ótrúlega fallegt vídeó og lagið ekki síður fallegt, en það fjallar einmitt um fæðingar.

Hér er svo textinn við lagið, en okkur finnst það einmitt voða lýsandi fyrir fæðingu 🙂

There we lay, in a low place
Waiting game, no rules no form
A crooked smile, spread on your face
All prepared for the coming storm

Our embrace, like a slow dance
moving with unyielding force
Waves of pain, gentle torment,
A rising tide with no remorse

We can work it out
We can work it out
We can do without the fear.

Hours pass in a slow ache
As I hold your tender frame
Then you fall, like a snowflake
Melting in the growing flame

We can work it out
We can work it out
We can do without the pain.

Come on baby one more go,
you can do it! it’s a miracle! it’s swell!
Oh my god you’re doing well! It’s almost over!

Squeeze my hand we’re almost there!
You can do it! Hold on baby! Something’s wrong!
Come on darling! Just stay strong! It’s almost over!

Come into the light
come into the light
welcome home 
come into the light

Þegar síðasta versið er spilað, þá tárast María, velkominn heim Baun! 😀

Fæðing Bauns


Þetta var orðið heldur vandræðalegt. María búin að vera með samdrætti í margar vikur núna og var búin að þurfa að vera heima, rúmliggjandi að mestu, í mánuð til þess að passa að litli gutti kæmi ekki of snemma í heiminn. Við fórum yfir 37 vikna markið þann fyrsta janúar og nú átti litli kall að vera kominn!

Laugardaginn 9. janúar fara Lilja og María í IKEA og labba og labba og labba (að mati Maríu allavegana sem er búin að vera kjurr í mánuð), en það er bara gott því kannski kemur þetta fæðingunni af stað. Þær setjast niður í nýja IKEA kaffihúsinu og María fær sér sterka Indverska kjúklingasúpu. Þegar þær eru svo á leið heim hitta þær Rín á bílastæðinu, en hún og maður hennar Bjarni höfðu einmitt verið í mat hjá okkur kvöldið áður. Rín spyr hvort María sé ekki að fara varlega en María neitar því, nú skal barnið koma og er hún því búin að rölta allt IKEA endilangt! Rín óskar Maríu góðs gengis og ekki frá því að það hafi virkað með 🙂

Um kvöldið er svo matarboð hjá ömmu Steinu og afa Frikka og planið að Róbert fái að gista hjá þeim þessa helgi. Í matinn er dýrindis (glaður) hryggur og njótum þess í botn. Þegar Kári og María eru komin heim er farið í göngutúr (kannski gerist þá eitthvað?) og svo er horft á Fargo, seríu 1, til klukkan 2 um nóttina. Það var erfitt að hætta því við vorum alveg að verða búin með seríuna og þurftum að sjálfsögðu að klára!

Þegar María og Kári eru komin upp í rúm finnur María að það eru einhverjir samdrættir í gangi, þessir venjulegu sem eru búnir að vera í gangi í nokkrar vikur. Hún nær ekki að sofna vegna þeirra og klukkan 4.30-5.00 er hún komin á fætur og byrjuð að rölta um íbúðina til þess að halda þeim gangandi og finnur að samdrættirnir eru að styrkjast. Milli 5.30 og 6.00 vekur María Kára og biður hann um að vera með sér, samdrættirnir eru orðnir nokkuð harðir og María þarf á góðri hendi til að kreista. Kári byrjar að mæla á milli, en María vill ekki vita nákvæmlega hversu stutt er á milli og frekar einbeita sér að verkefninu framundan. Það er strax frekar stutt á milli eða um 2-3 mínútur. María og Kári ræða fram og tilbaka hvort þau eigi að hafa strax samband við ljósmæðurnar, en María vill leyfa þeim að sofa til að minnsta kosti 7. Klukkan 6.40 eru þó samdrættirnir orðnir þannig að Kári vill hringja, það gæti alveg verið að þessi fæðing gerist hraðar en sú fyrri. Hrafnhildur svarar og þær eru nú báðar í startholunum. Nokkrum mínútum seinna eða klukkan 6.50 fer þó vatnið hjá Maríu, Kári lætur Hrafnhildi vita af því og hún og Arney ákveða að koma, 7.20 er Arney mætt og stuttu seinna líka Hrafnhildur.

Hrafnhildur mætt

Hrafnhildur mætt

María hringir í afa Finn, en hann eða amma Hrefna ætluðu að taka nokkrar myndir í aðdraganda fæðingarinnar. Afi Finnur er þó því miður kvefaður og spyr hvort amma Hrefna megi ekki koma í staðin. Jú, alveg sjálfsagt! Hún er svo komin til okkar um 8.00.

Kári fer í það að pumpa upp fæðingarlaugina og er langt kominn þegar Hrafnhildur og Arney eru mættar. Þau hjálpast svo að við að fylla laugina með vatni.

Laugin tilbúin!

Laugin tilbúin!

Kári heyrir í afa Frikka og ömmu Steinu og lætur vita að nú sé litla Baun á leiðinni. Við ákváðum að leyfa Róberti sjálfum að ákveða hvort hann vilji frekar vera áfram hjá ömmu og afa eða koma heim og vera viðstaddur fæðingu litla bróðurs. Kári talar við Róbert sem finnst meira spennandi að fara og gefa öndunum brauð heldur en að sjá litla bróður fæðast, hann geti séð hann seinna 🙂 Kári hringir líka í ömmu Guðrúnu og lætur vita að nú sé allt komið af stað.

Vatnið nýfarið og að sjálfsögðu var sent snap á alla! ;)

Vatnið nýfarið og að sjálfsögðu var sent snap á alla! 😉

Legvatnið heldur áfram að leka og hríðarnar harðna. María prófar að fara í laugina og ji, hvað það er gott! Það var því miður engin laus laug þegar við mættum á spítalann þegar Róbert fæddist og María saknaði þess mikið. Einn af kostum þess að eiga heima, það er alltaf laus laug 😉

MB0A3548-51

Klukkan 10 biður María ljósmæðurnar að gera innri skoðun, svo við vitum fyrir víst að það sé allavegana eitthvað að gerast. Jújú, 7 til 8 cm í útvíkkun. Arney finnur einnig í skoðuninni að það er belgur með vatni fyrir framan kollinn, það er sem sagt ekki það vatn sem hefur verið að leka hjá Maríu, heldur kemur það einhverstaðar ofar úr belgnum.

María heldur nú áfram að labba um íbúðina og anda sig í gegnum hríðarnar. Kári er nálægt og styður konu sína. Hrefna er heldur aldrei langt undan og þegar María þarf tvær hendur til þess að kreista eða þegar Kári þarf að fara á klósettið eða fá sér kaffi tekur Hrefna við stuðningshlutverkinu. Af og til kemur Arney og mælir hjartslátt litla kalls og blóðþrýsitng Maríu.

MB0A3572-51

Við ytri skoðun kemur í ljós að Baun snýr sennilega ekki rétt. Bakið á að snúa meðfram bumbunni og andlitið inn á við, en hann er að öllum líkindum akkurat öfugt eða einhvernvegin til hliðanna. Þegar klukkan nálgast 11 reyna Hrafnhildur og Arney að snúa honum rétt. Þetta er gert með því að hrista undir bumbunni og mjaðmirnar á Maríu með teppi eða sjali, á meðan María liggur fram á við.

Njóta sólarupprásarinnar á milli hríða

Njóta sólarupprásarinnar á milli hríða

Hríðarnar halda áfram og María heldur áfram að rölta. Þegar klukkan nálgast 2 er María orðin mjög þreytt. Á þremur tímum hefur nánast ekkert breyst, en hríðarnar hafa samt verið nokkuð strembnar. Það tók líka dálítið sálrænt á að allt þetta erfiði hafði ekki skilað neinu. Arney stingur því upp á annarri innri skoðun einhverntíman á næstunni til að sjá hvernig staðan er. María er til í að gera innri skoðun strax. Ef fæðingin heldur áfram að vera í þessari bið þarf að skoða hvort við þurfum að fara upp á spítala og fá hríðörvandi lyf. Við innri skoðun kemur í ljós að Baun er enn að stríða okkur og snýr ekki alveg rétt. Belgurinn með vatninu sem liggur fyrir framan höfuðið er enn til staðar og ljósmæðurnar spurja hvort við myndum vilja gera belgrof. Við það mun hausinn detta neðar í grindinni og gæti snúist við í leiðinni þannig að hausinn snúi aftur og bakið fram. Okkur lýst vel á það, enda til í að reyna allt sem hægt er á meðan við erum heima. Við erum ekkert gríðarlega spennt fyrir spítalaheimsókn þennan dag þannig að ef þetta gæti virkað þá erum við meir en til í að prófa.

10 mínútur í 2 er gert belgrof og viti menn! Það virkaði! Hríðarnar verða mjög sterkar og María byrjar að finna fyrir rembingsþörf. María reynir eins og hún getur að rembast mjúklega með hríðunum til þess að minnka líkurnar á að rifna (það er hægt að æfa þetta á klósettinu, fyrir þá áhugasömu 😉 ). María er á hnjánum upp í rúmi og liggur ofan á púða, Hrefna er vinstra megin við hana og Kári hægra megin. María nær að kreista á þeim puttana hressilega í hverri hríð, en núna eru þær orðnar mjög öflugar.

MB0A3583-51

Klukkan hálf þrjú leggst María á hægri hliðina og heldur í vinstri ökklann sinn, Kári hjálpar Maríu að halda fótnum uppi. Korteri seinna sjá ljósmæðurnar kollinn gægjast fram 🙂

Arney fylgist vel með

Arney fylgist vel með

20 mínútum eftir það og mörgum öskrum seinna fæðist kollurinn, eða klukkan 5 mínútur yfir 3. María trúir því hreinlega ekki að þetta hafi tekist! Sársaukinn var gríðarlegur og var María alveg viss um að hafa rifnað hressilega, enda heyrðust öskrin örugglega út um allt hverfið 🙂 Ekkert bólar þó á næstu hríð til þess að klára fæðinguna og ljósmæðurnar spurja Maríu hvort hún vilji fara aftur á hnén? María er til í það enda finnur hún að þá komi hríðin. Sem hún og gerði stuttu seinna og litla Baunin okkar er loksins fædd! Arney réttir Maríu hann milli fótanna og við bara trúum því ekki að hann sé kominn! Hann grætur hressilega og léttirinn sem við finnum, ekki síst María, er ótrúlegur. Þarna er hann! Hann er kominn! Og hann er til! Við vissum að við ættum von á barni, en á sama tíma þá bjuggumst við einhvern veginn ekki alveg við að við ættum eftir að eignast barn. Við bara trúðum þessu ekki! Og hversu fullkominn?!

Hann er fæddur! :D

Hann er fæddur! 😀

Eins og í síðustu fæðingu þá er afskaplega fúlt og óréttlátt að fæðingin skuli ekki vera búin þegar barnið er fætt. Loksins, loksins er barnið komið og maður þarf að halda áfram að rembast? Og finna sársauka. En fylgjan fæðist nokkrum mínútum á eftir litla kall og gekk það nú bara ágætlega. En svo gengur leginu ekki eins vel að búa til samdrætti og skila öllu út. María fær því sprautu sem eykur á samdrætti og virkar hún vel. Svo þarf að skoða rifurnar, en María rifnaði alveg þótt ekki nærri eins mikið og þegar Róbert fæddist. Ljósurnar skoða þetta allt vel og staðfesta að hægt sé að sauma heima, þetta sé ekki það mikið, hjúkk!

Þreytt María

Áður en sú vinna hefst þó fer litla Baun á brjóst sem hann gerir með glæsibrag! Ótrúlegt hvað þau ná að læra að sjúga vel í bumbunni. Það er svo ekki fyrr en hálftíma eftir fæðingu, 20 mínútur í 4, sem Kári klippir naflastrenginn. En þá er fylgjan löngu fædd og sláttur hættur í strengnum.

MB0A3663-51

Nú kveður Hrefna okkur, eftir að hafa tekið síðustu myndina: af Kára klippa naflastrenginn. Eftir saumaskapinn eigum við foreldrarnir og nýi fjölskyldumeðlimurinn kósý tíma upp í rúmi. Ljósmæðurnar eru áfram hjá okkur og fylgjast með og ganga frá öllu. En við höldum áfram að stara á litla molann okkar með stjörnur í augunum og getum ekki hætt að dást að litla kraftaverkinu okkar 😀

MB0A3669-50

Áður en við vitum af er klukkan að nálgast 6 og Róbert er kominn heim ásamt afa Frikka, ömmu Steinu og Báru frænku. Róbert er spenntur að sjá litla bróðir en vill nauðsynlega segja okkur sögu fyrst 🙂 Svo kemur hann upp í rúm og fær að skoða þann litla. Hann er afskaplega hrifinn af honum og skoðar vel eyrun, naflastrenginn og fær aðeins að klappa honum.

Þegar við lítum tilbaka á fæðinguna þá finnum við til mikillar gleði og þakklæti. Þetta var yndisleg fæðing, þótt hún hafi verið erfið á köflum, og svo mikill lúxus að hafa fengið að eiga heima, að hafa fólkið sitt með sér og hafa þær ljósmæður með okkur sem við vorum búin að kynnast og velja fyrirfram. Við gætum ekki verið ánægðari með þessa yndislegu fæðingu 😀

Fylgjuát


Velkominn út fyrir þægindahringinn.

Það eru skiptar skoðanir um þetta, skiljanlega, og fyrir marga er þetta langt út fyrir þægindahringinn. Ég, María, rakst fyrst á þetta á netinu fyrir nokkrum árum þar sem kona í Bandaríkjunum var að ræða þetta á YouTube. Afskaplega forvitnilegt, en datt ekki í hug að ég mundi einhverntíman vilja gera þetta sjálf. Af og til hefur þetta komið upp í umræðunni en mér hefur aldrei fundist þetta ólógiskt. Í fyrsta lagi borða önnur spendýr fylgjuna sína, í öðru lagi er ekkert óeðlilegra að borða sinn eigin innmat heldur en af öðrum dýrum og í þriðja lagi er mun öruggara en að borða sinn eigin innmat en úr öðrum dýrum. Í þessu eru engar utanaðkomandi bakteríur eða efni sem líkaminn þarf að berjast við. Og í fjórða lagi er fylgjan full af næringarefnum.

Nú hefur fylgjuát kvenna ekki verið rannsakað neitt sérstaklega svo ég viti til og því ýmsir fyrirvarar á þeim kostum sem nefndir eru. Áhrifin sem konur finna fyrir eru mjög misjafnar, margar segja áhrifin jákvæð á meðan sumar konur finna fyrir neikvæðum áhrifum. Sért þú að spá í þessu mæli ég með að skoða allar hliðar málsins.

Hugmyndin um að elda og borða mína eigin fylgju kom eftir að við höfðum tekið ákvörðun um að eiga heima. Ef svo yrði af þá mundi ég geta valið sjálf hvað ég vildi gera við fylgjuna. Það var aðalega tvennt sem ég vildi gera: annað hvort að borða hana eða að koma henni ofan í jörðu og gróðursetja tré ofan á: fylgjutré 🙂 Ég gerði frekar ráð fyrir því að vilja elda hana og borða, enda eru margir mögulegir kostir við það, heldur en að planta henni en ef mér mundi snúast hugur eftir að hafa séð hana þá gæti ég alltaf skipt um skoðun. Og svo eins og Kári sagði „þú færð nú sennilega bara eitt tækifæri til þess að borða þína eigin fylgju“ og þá var það selt 😉

Þegar fylgjan var fædd skoðuðu ljósmæðurnar hana, eins og þær eiga að gera, og þegar kom í ljós að allt var í góðu með hana þá setti Kári hana í frysti. Viku seinna tók ég hana úr frystinum og fékk Kristbjörgu heimaljósmóður (ekki ljósmóðurinn okkar þó) til þess að aðstoða mig við að elda hana og koma henni í hylki. Það eru til ýmsar leiðir til þess að elda fylgju en þetta er nokkurn vegin það sem Kristbjörg gerði: skar belgina af, þerraði fylgjuna og skar hana svo í bita. Eftir það settum við hana i ofn og bökuðum á lágum hita (80-100°C) í 8-10 klukkutíma. Þegar það var komið þá duftuðum við Kári hana í NutriBullet, svo kom Kristbjörg aftur og hjálpaði okkur að setja duftið í hylki. Það er frábært að hafa einhvern með sér í þetta sem þekkir fylgjur vel og hefur gert þetta áður, og mælum hiklaust með Kristbjörgu 🙂

Fylgjan komin í hylki! Það eru til myndir áður en hún var komin í hylki en við ákváðum að hlífa ykkur :)

Fylgjan komin í hylki! Það eru til myndir áður en hún var komin í hylki en við ákváðum að hlífa ykkur 🙂

Núna er ég búin að vera að taka hylkin í tvær vikur og líður afskaplega vel. Mér finnst alveg ómögulegt að segja til um hvort það sé fylgjuátinu að þakka eða ekki, en ég veit að þetta skaðar allavegana ekki. Seinni tvær vikurnar hafa verið töluvert auðveldari en fyrri vikan (án fylgjuáts) en það gæti líka verið vegna þess að það er almennt jákvæð fylgni milli þess tíma sem líður frá fæðingu og vellíðunar móður. En mér finnst þó mjög líklegt að þetta sé að hjálpa mér að ná blóðmagninu upp aftur, en ég missti talsvert af blóði í fæðingunni. Hvort þetta geri mig svo orkumeiri og haldi fæðingarþunglyndinu frá er erfiðara að segja. Mér finnst ég töluvert orkumeiri en til dæmis þegar Róbert var á Bauns aldri, en Róbert var líka veikur af magakveisu og almennt órólegra barn. Sömuleiðis finnst mér ég finna töluvert minna fyrir fæðingarþunglyndi núna en ég gerði með Róbert, en það gæti aftur verið vegna þess að þá svaf ég töluvert minna og þurfti að sinna mjög litlu veiku barni.

Mundi ég mæla með þessu? Ekki hugmynd! Mér finnst þetta gera mér gott og ef mæður vilja, treysta sér til og vilja prófa eitthvað nýtt þá er þetta algjörlega eitthvað til þess að skoða 🙂

37 + 3


Það er EKKERT að gerast.. Eftir 2 vikur af rúmlegu til þess að passa að þessi gutti komi ekki of snemma þá er frekar pínlegt að ekkert skuli gerast þegar loksins má fara að gerast eitthvað :p

Það fylgir þessu bæði góð og slæm tilfinning. Það er gott að geta fengið aðeins meiri tíma til þess að undirbúa okkur en á sama tíma er löngunin til þess að klára þetta ansi sterk. Við reynum samt að njóta eins og við getum. Litli kall mætir þegar hann er tilbúinn 🙂

Það er kannski ekki alveg rétt að segja að ekkert sé að gerast, það eru enn vissulega fullt af samdráttum flestar nætur en þær detta niður um morguninn og gera því ekkert annað en að halda fyrir mér vöku, eins og núna :/ og þarf ég svo að sofa hálfan daginn.

Róbert tilkynnti pabba sínum (þegar mamma var sofandi eftir langa andvökunótt) að Bangsi væri líka með barn í maganum og því væri hann líka alltaf sofandi! Úps.. Elsku barn ❤

image

Róbert og bumbulingur í gær

/María

32 klukkutímar


Það var bara ekki nóg að hafa daganiðurteljara og því kominn klukkutímaniðurteljari 😛

image

Bara 32 klukkutímar í áramót og þar með 37 vikurnar! :mrgreen:🎉

/María

Flöskuskeyti handa Baun


Elsku littli Kára- og Maríuson, tvö.

Nú er akkurat mánuður í áætlaðan hitting. Það gæti þó orðið skemmra miðað við framgang mála. Þrátt fyrir ungan (neikvæðan) aldur, þá ert þú nú þegar mjög öflugur, og þú ert með typpi. Það er um það bil allt sem við vitum. Og að við elskum þig! Þú ert okkar og við erum þín.

Við hlökkum rosalega til þess að fá að kynnast þér. Við pælum mikið í því þessa dagana hvernig þú ert. Ætli þú sért líkur bróður þínum? Svona fullkomin blanda af okkur foreldrunum, eða ertu kannski líkari pabba eða mömmu? Þýðir það, að þú skulir vera svona duglegur að hreyfa sig, að þú verðir mjög virkt barn? Verður þú knúsidýr eins og við hin í fjölskyldunni eða átt þú frekar eftir að vilja fá þitt pláss? Sama hvernig þú ert þá lofum við þér að gera okkar allra besta til þess að þú verðir heill og hamingjusamur. Við munum knúsa þig þegar þú vilt, kyssa á bágtið þegar þú meiðir þig og hlusta á þig, líka þegar við erum þreytt og ekkert af því sem þú segir mejkar sens.

Fyrir utan okkur foreldrana þá býður þín alveg ofboðslega spenntur stóri bróðir, Róbert Leví. Við vitum ekki hvernig er að vera númer tvö í systkinaröðinni. Kannski felst í því minni athygli, minni tími og meiri systkinaerjur. Við munum þó alltaf elska þig jafn heitt og ekkert minna en stóra bróðir! Stóri bróðir mun líka elska þig alveg ofboðsleg (eins og hann gerir nú þegar) jafnvel þegar hann klagar þig fyrir að hafa stolið kökunni.

Það eru nokkrar reglur í fjölskyldunni, sem þú átt eftir að kynnast fljótlega, en alveg eins gott að byrja ræða þær snemma. Sú fyrsta, og jafnframt sú mikilvægasta, er að við bjóðum hvort annað knús, oft. Við elskum hvort annað og erum dugleg að tjá það. Við segjum fyrirgefðu og virðum hvort annað. Við erum heiðarleg, nema þegar kemur að jólasveinunum (og erum við foreldrarnir samt með samviskubit yfir því og biðjumst við hér með fyrirfram fyrirgefningar), en lofum að segja sannleikann á endanum. Við hlæjum saman, hjálpumst að, og tjáum þakklæti okkar reglulega. Við erum til staðar fyrir hvort annað.

Gangi þér vel að stækka á lokametrunum elsku Baunin okkar. Við hlökkum alveg ofboðslega til að sjá þig! 😀

Spennt fjölskylda

Spennt fjölskylda (ljósm. HoF)

/Mamma og Pabbi

P.s. Hér má finna Flöskuskeyti handa Róberti, skrifað 2010 🙂

 

Hver er spennt fyrir áramótunum? Essasú?!


Við! Alveg ógó! Og af hverju er það? Jú, 1. janúar 2016 erum við komin akkurat 37 vikur og litla Baun má koma í heiminn (samkvæmt sónar er settur dagur 22. janúar en ekki 21. janúar, heilbrigðisstarfsfólk fylgja sónar dagsetningunni). En þessa dagana heldur hann að hann megi kannski koma eitthvað fyrr, sem er bara nónó.

Niðurtalningin er því byrjuð: 11 dagar í 1. janúar í dag. Þangað til er María heima og gerir helst ekki neitt nema að sinna frumþörfum.

Þegar María gleymir sér og heldur að hún geti nú samt alveg sett í eina vél, þá byrja samdrættirnir að koma 1/2 til 1 sólahring seinna. Sem betur fer hafa þeir hingað til verið óreglulegir og hætt að mestu leiti nokkrum klukkutímum fyrr, en hafa samt náð að gera okkur verulega áhyggjufull. Því er algjört bann við að gera nokkurn skapaðan hlut fyrir Maríu.

Greyið Kári er því eins konar einstæður faðir þessa dagana, og eiginlega með tvö börn á framfæri frekar en eitt :p

Stórir bróðir að heilsa litla bróður

Stórir bróðir að heilsa litla bróður

Góðu fréttirnar eru þær að nú erum við búin í öllum prófum og Kári kominn langt á veg með þau verkefni sem hann þarf að klára fyrir jól, þannig kósý tími fram undan hjá þessari litlu fjölskyldu 🙂

/Kári, María og Baun (35 vikna + 4 dagar)

Vika 31: Lífið og bumba


Í dag erum við komin 31 viku á þessari meðgögnu, óttalega líður tíminn hratt! Ef Baun kæmi á sama degi og Róbert þá eru aðeins 7 vikur og 5 dagar í hann, íííí! En gæti allt eins verið 11 vikur 🙂

Við erum svo sem alls ekkert að stressa okkur og okkur finnst biðin ekki löng. Frekar að hann fái að bakast lengra heldur en styttra, enda margt sem við viljum gera og já, eiginlega bara njóta áður en hann kemur. Við vitum að fyrstu vikurnar geta verið svolítið erfiðar, þótt þær séu að sjálfsögðu líka yndislegar. En að þurfa ekki að vakna milljón sinnum á nóttinu eru forréttindi og við ætlum að njóta á meðan við getum! 😉

Það er þó búið að vera heldur mikið að gera hjá okkur að undanförnu. Kári er með 100% ráðningu, tímabundna, en er á sama tíma að kenna um 8-10 tíma á viku, er í skólanum og með þrjú verkefni til hliðar eins og staðan er í dag. Ég er svo að vinna og í kvöldskóla. Það er því búið að vera nóg að gera og hefur okkur við ekki fundist við hafa getað notið meðgöngunnar eins mikið að undanförnu. Þetta fer þó að klárast eitt af öðru og verður að mestu búið fyrir jól.

IMG_2795-1

Ljósm. HoF

Því miður þá hefur heilsan mín ekki verið uppá sitt besta. Grindargliðnunin er farin að segja vel til sín og svo komumst við að því í síðustu viku hjá grindarbotnssérfræðingi (já, það er til svoleiðis, meira að segja tveir á Íslandi) að hann mætti alveg vera sterkari og teyganlegri en hann er. Hann kom víst ekki eins vel út úr síðustu fæðingu eins og hefði mátt. Góðu fréttirnar eru þær að það eru margar æfingar sem hægt er að gera og til tölulega auðvelt að byggja hann upp. Hins vegar er tíminn frekar naumur fyrir næstu fæðingu. En, eins og Kristbjörg ljósmóðir segir, þetta endar alltaf með barni, sama hvað! Hvort sem grindarbotninn verður fullkomlega tilbúinn eða ekki..

En vegna þessara verkja hef ég fengið leyfi til þess að minnka við mig vinnu en ég vinn um 50% núna. Það er alveg ómetanlegt að vinna á góðum stað á meðgöngu, ótrúlega kann ég að meta það! Það er reynt að hlífa mér við öllum stress verkefnum og fæ ég að vinna það sem ég vil í rólegheitum. Ég hef líka fullt leyfi til þess að fara eða koma eins og ég vil eftir því hvernig dagarnir eru. Það er mikill léttir 🙂

/María

Babyshower!


Mestu krútthaus-yndisvinkonur héldu fyrir mig Babyshower! Eða Barnasturta eins og sumir vilja kalla þetta 😉 Ég á náttúrulega ekki til orð yfir frábærum vinkonum sem ég á! Að þær skuli taka sig svona saman, plana, baka, kaupa gjafir og ég veit ekki hvað og hvað! Þetta fær mann virkilega til þess að átta sig á hversu heppin maður er með fólkið í kringum sig! ˂3 Dúllurassar! 😀

En þetta var mjög gaman! Ég var sótt af Önnu (sem btw kom alla leiðina frá Drangsnesi!) sem skuttlaði mér til Öllu Stínu þar sem allar biðu, en þar var búið að skreyta hátt og lágt (í bláu að sjálfsögðu) og borð fuuuullt af kræsingum! Ólétta konan ekki ósátt við það 😉

12200819_10153141160932761_246621767_n

Svo var farið í leiki, borðað, spjallað, dekur (gelnegur og facial, hef sjaldan verið sætari) og afhentar gjafir. Ofboðslega var ég ánægð að litla Baun fær föt sem eru glæný og ekki bara föt frá eldri bróður 🙂 Síðast en ekki síst fékk ég meðgöngunudd! Sem ég er úberspennt fyrir, en ég ætla að fara í desember þegar skólinn er búinn, get ekki beðið!

Sara og María úbersætar með maska

Sara og María úbersætar með maska

Í lokin kveikti hvert og eitt þeirra á kerti og sögðu einhverja ósk fyrir Baun. Ótrúlega var þetta fallegt! Það er svo magnað að sjá hvað nýtt líf, nýtt barn, er ekki bara foreldranna, heldur allra í kringum barnið. Það eru ekki bara við sem elskum það, vonum, óskum og biðjum. Fullt, fullt af fólki í kringum okkur sem eru að taka þátt í lífi barnsins okkar og ó, hvað það er fallegt 🙂

María blæs kertin með öllu fallegu óskunum

María blæs kertin með öllu fallegu óskunum

Takk elsku dúllurnar mínar fyrir allt! Þið eruð náttúrulega æði hver og ein ykkar ˂3

/María og Baun (28 vikur og 3 dagar)

Sæt eins og mörgæs!


Eins og þið vitið þá er ég byrjuð að vagga, fallega að mínu mati. Og greinilega fleirum sem finnst það:

Ég er að labba/vagga framhjá samstarfskonu minni, Báru, sem segir
„Veistu, María, mér finnst mörgæsir alveg ofboðslega sætar!“
„Já, er það?“ frekar hlessa..
„Já, ég ELSKA mörgæsir!“
„Ertu að segja að ég sé mörgæs?!“ 😀

image

Bára og María á rauðum degi í vinnunni (við unnum verðlaun!)

28 vikna skoðun: ljósmóðir og læknir


Þar sem heimaljósmæðurnar taka við eftir viku 32 þá er þetta síðasti tíminn okkar hjá Ólöfu ljósmóður. Svolítið leiðinlegt, þar sem hún hefur verið með okkur í gegnum alla meðgönuna með Róberti og það sem af er þessari meðgöngu, og alveg yndisleg ljósmóðir! Kári í gríni (vonar María):
„Ja, þangað til næsta barn!“
María:
„Já, barnið sem þú ætlar að ganga með?“ 😀

En annars gekk tíminn ljómandi vel. Blóðþrýstingurinn góður, pissið eins og best er á kosið (greinilega hægt að hafa skoðun á því), legbotninn mælist 29 cm og blóðmagnið (hemoglobin) 114 sem vill svo skemmtilega til að er nákvæmlega sama blóðmagn og María var í viku 28 með Róbert. Hjarstlátturinn var líka fullkominn, hjá bæði móður og barni.

Við ræðum svo grindina, sem er orðin nokkuð sársaukafull, og Ólöf vill endilega að við ræðum við heimilislækninn til þess að fá ráðleggingar varðandi sjúkraþjálfun og vinnutíma Maríu, kannski þarf að minnka hann eitthvað (vinnutímann, ekki lækninn). Það vill svo til að það er akkurat að losna tími hjá lækninum og þurfum við því ekki að bíða lengi eftir þeim tíma.

María lýsir einkennum sínum en læknirinn er sammála því að gott sé að fara til sjúkraþjálfara og svo gæti nú alveg verið gott að minnka vinnuna líka. María fær vottorð fyrir þessu öllu.

Vika 28, rúmlega

Vika 28, rúmlega

Það er alltaf svolítið erfitt að gera sér grein fyrir sársauka og á hvaða stigi hann er. Sérstaklega svona sársauka sem er sífellur og alltaf í bakgrunni, sjaldan yfirgnæfandi. Er þetta eðlilegt? Á ég að geta þolað þetta? Hversu langt á ég að leyfa mér að fara áður en ég segi stopp? Allt er þetta mjög huglægt mat og yfirleitt ekki hægt að segja til um það fyrr en maður hefur hreinlega farið of langt. Tilgangurinn með að minnka vinnu og setu (sem er hvað verst fyrir grindina) er einmitt að maður getur unnið lengur í stað þess að keyra sig alveg út. Sömuleiðis að vera ekki búin með batteríin áður en barnið kemur í heiminn. Þannig að vissu leiti er þungu fargi af Maríu létt: að fá staðfestingu heilbrigðisstarfsfólk að það sé ástæða fyrir því að taka einkennum alvarlega og vera róleg 🙂

/María, Kári og Baun (28 vikna + 1 dagur)

HypnoBirthing


Í framhaldi af ákvörðun okkar um að fæða heima ákváðum við að fara á svokallað HypnoBirthing námskeið. Þegar maður les um heimafæðingarpoppa, þá oftar en ekki, upp upplýsingar um HypnoBirthing og tengdar aðferðir. Þótt til séu margar svipaðar aðferðir og hugmyndafræði völdum við þetta einfaldlega vegna þess að það er eitt af fáum slíkum námskeiðum í boði hér á landi 🙂

Kristbjörg, hin heimafæðingarljósmóðirin á Íslandi, kennir námskeiðið hjá 9 mánuðum.

taking-the-world-by-calm-logo

HypnoBirthing (dáleiðslufæðing? Eða eitthvað álíka 😉 ) leggur mikla áherslu á að fæðing sé náttúruleg, þurfi alls ekki að vera sársaukafull (þótt fæðingar taki vissulega á) og sé ótrúleg upplifun foreldra, barns og fjölskyldu. Okkur líkar vel þessa hugmyndafræði vegna þess að:

  • Við hugleiðum nú þegar í daglegu lífi og því ekki að nota hana við fæðingu barnsins okkar líka?
  • Okkur fannst við njóta fæðingu Róberts alveg svakalega og þá sérstaklega heima, áður en við fórum upp á spítala. Einn besti dagur lífsins! Nú viljum við taka þetta alla leið og klára fæðinguna heima.
  • Við erum mjög hrifin af hugmyndinni um að fæðing sé náttúruleg, algjörlega stresslaus og falleg. Hún er tími fyrir foreldra og barn að koma saman.
  • Foreldrum, og þá sérstaklega móður, eru engin mörk sett við fæðingu. Hún fæðir þar sem hún vill, liggur, stendur, situr þar sem hún vill, borðar það sem hún vill, hlustar á það sem hún vill, hefur það fólk í kringum sig sem hún vill og svo framvegis. Þetta er fyrst og fremst HENNAR fæðing.
  • Það má alltaf segja nei: á spítalanum með Róbert voru okkur sett mörg takmörk; Kári var ekki leyft að taka á móti Róberti (eða að minnsta kosti fá fyrstur að koma við kollinn á barninu á eftir móður), María var sett á hríðörvandi drip, María fékk ekki að vera í baði, ekki var hægt að hlusta á tónlist og María átti að liggja upp í rúmi. HypnoBirthing kennir okkur – sem ætti að vera sjálfsagt án námskeiðs – að þetta sé OKKAR fæðing og við megum hafa þetta eins og við viljum. Við megum segja nei. Að sjálfsögðu er sá varnagli á að ef eitthvað ógnar öryggi móður eða barns þá fylgir maður að sjálfsögðu því sem er sagt. En svo lengi sem allt er eðlilegt er yfirleitt óþarfi að setja foreldrum mörk. Oft virðist sem tímapressa á starfsfólk eða hentugsemi þess ráði því hvernig, og í hvaða stellingum, fæðingin eigi sér stað. Við viljum fá að hafa þetta okkar höfði.
Bókin sem fylgir með námskeiðinu

Bókin sem fylgir með námskeiðinu

Hingað til erum við mjög ánægð með námskeiðið, en við erum búin með 2 tíma af 5. Sumt betur við okkur en annað, en við tökum það til okkar sem okkur finnst viðeigandi. Og við höfum lært helling! Mælum hiklaust með þessu allavegana 🙂 Eins og einhver sagði „you can never be too educated.“

/María, Kári og Baun (28 vikur + 2 dagar)

Heimaljósmæður


Eftir fæðingu Róberts var María alveg harðákveðin að eiga næsta barn (ef til kæmi) heima, og ef það væri ekki hægt þá væri það með mænudeifingu! Okkur líst þó báðum vel á heimafæðingu og ætlum að reyna þann möguleika fyrst 🙂

Það eru tvær þjónustur sem bjóða upp á heimafæðingar á höfuðborgarsvæðinu í dag: Björkin og Kristbjörg heimafæðingarljósmóðir. Við ákváðum að hafa samband við Björkina fyrst, en þar starfa tvær heimafæðingarljósmæður, þær Arney og Hrafnhildur. Við fengum svona spjalltíma við þær, enda höfðum við margar spurningar sem rúmuðust ekki í einum tölvupósti. Auk þess vildum við hitta þær og vera viss um að okkur liði vel með þeim og treystum þeim til þess að taka á móti barni okkar.

bjorkin

Við mættum á skrifstofuna hjá þeim og þær gáfu sér góðan tíma að fara yfir allt með okkur. Bæði fræðilega upplýsingar, sögur af fæðingum og svo ýmsar upplýsingar um þær sjálfar. Þetta var góður tími og við fundum bæði til mikils traust til þeirra. Þær hafa greinilega metnað fyrir þessu og mikla ástríðu. Við vorum því fljót að ákveða að Arney og Hrafnhildur yrðu okkar ljósmæður! Okkur finnst mikið öryggi í því að þær séu tvær og starfa alltaf saman og mæta báðar í heimafæðingu. Ef eitthvað kemur upp á þannig að önnur þeirra getur ekki mætt (veikindi eða slíkt), þá eru þær með þriðju ljósmóðurina við höndina.

Þær taka svo við mæðraskoðuninni frá og með viku 32-34 og þá hittum við þær næst.

Við erum óttalega spennt fyrir þessu og vonum svo sannarlega að heilsa og aðstæður leyfi okkur að eiga ljúfa heimafæðingu 🙂

/Kári, María og Baun (25 vikur + 5 dagar)

P.s. við mælum eindregið með heimasíður Bjarkarinnar ef þið hafið áhuga á að lesa ykkur meir til um heimafæðingar

Grindarvesen


Í dag er grindarvesenisdagur. Ég er búin að hvíla mig í allan dag í von um að með hvíldinni verði grindin betri. Veit ekki hvort það hafi endilega tekist, en sakar ekki að reyna. Það er bara svolítið erfitt að geta ekki neitt, sérstaklega fyrir samviskuna.

image

/María og Baun (27 vikur + 5 dagar)

Góumörkin


Í dag er merkisdagur og dagur til þess að fagna 😀 Í dag er Baun 25 vikna og 4 daga eða það sem við köllum í okkar fjölskyldu „Góumörk.“ Á þessum meðgöngudegi fæddist elsku Góa okkar, 16. nóvember 1986, vel fyrri settan dag sem var 25. febrúar 1987.

Það er ekki svo að við höldum að nú sé allt í lagi að Baun komi í heiminn, það reddist bara, alls ekki! Þessi dagur minnir okkur þó á hversu mikil blessun það er að ná þetta langt á meðgöngunni. Hver dagur umfram þennan dag er mikil gjöf. Þótt bumban stækki, svefninn verði erfiðari, slitförum og verkjum fjölgi, og klósettferðunum sömuleiðis, þá er það allt þvílík gjöf því það er alls ekki sjálfsagt að fá að hafa bumbubúann sinn svona lengi í kúlunni sinni. Þessi dagur minnir okkur líka á hversu mikið kraftaverk elsku vinkona okkar er og hvað við erum ótrúlega ánægð að hafa fengið að kynnast henni og hún sé hluti af okkar lífi í dag.

Snædís Góa 2. vikna

Snædís Góa 2. vikna

Díana, mamma Góu, skrifaði nokkur minnisatriði frá þessum tíma sem við höfum fengið leyfi til þess að deila með ykkur:

Sunnudaginn 16. nóvember 1986 þrjóskaðist ég í þennan heim á 26. viku meðgöngu 850 gr. og 34 cm. Áætlaður fæðingardagur var 25. febrúar 1987. Ég var tekin með keisara og andaði sjálf fyrstu klukkutímana. Pabbi kom í land um kvöldið og fékk fréttirnar á bryggjunni. Á mánudeginum var foreldrum mínum sagt að ég þyrfti að fara í aðgerð ef æðin sem gefur súrefni til lunganna á meðgöngu myndi ekki lokast sjálfkrafa. Á þriðjudeginum var ég skírð á bleyjunni í hitakassanum! Ömmur mínar og afar voru viðstödd og fengu að sjá mig í þetta eina skipti á meðan ég var á vökudeild. Á miðvikudeginum fór ég í aðgerðina þá 690 grömm því eins og önnur og börn þá léttist ég eftir fæðingu. Í aðgerðinni marðist þindin og þess vegna þurfti ég á öndunarvélinni að halda næstu 8 vikur.

Snædís Góa 4. vikna. Hendin á mömmu Díönu við hliðiná

Snædís Góa 4. vikna. Hendin á mömmu Díönu við hliðiná

Snædís Góa 8. vikna og í fyrsta skiptið í fangi mömmu Díönu í lengur en nokkrar mínútur

Snædís Góa 8. vikna og í fyrsta skiptið í fangi mömmu Díönu í lengur en nokkrar mínútur

Snædís Góa 10 vikna og er böðuð í hræriskál af mömmu Díönu. Athugið að brúsinn á myndinni er lítil 250ml flaska.

Snædís Góa 10 vikna og er böðuð í hræriskál af mömmu Díönu. Athugið að brúsinn á myndinni er lítil 250ml flaska.

Snædís Góa 3. mánaða og fær loksins að fara heim, föstudaginn 13. febrúar 1987 þá 2.626 gr.

Snædís Góa 3. mánaða og fær loksins að fara heim, föstudaginn 13. febrúar 1987 þá 2.626 gr.

Það er alveg ótrúlegt að hugsa til þess hversu lítil Góa var (og er reyndar enn 😉 ). Þegar hún fékk loks að fara heim af spítalanum þá var hún 10,5 merkur. Róbert var 16 merkur þegar hann fæddist. Hún var 3,4 merkur við fæðingu og aðeins 2,8 merkur þegar hún fór í stóru hjartaaðgerðina, þá 3 daga gömul.

Já, ótrúlega erum við ánægð að þú skulir vera hér hjá okkur! Ekki síst María sem hefði nú örugglega hvorki komist í gegnum menntaskóla, né háskóla, án Góu sinnar 😉 Þær stöllur hafa brallað ýmislegt saman í gegnum árin, ásamt fleiri skrítnum menntaskólafígúrum! Og skemmtilegt að segja frá því að í sumar fögnuðu þær 13 ára vinaafmæli 🙂

Snædís Góa og María á góðum degi, tja, eða kvöldi :)

Snædís Góa og María á góðum degi, tja, eða kvöldi 🙂

Með ást og mikilli virðingu fyrir lífinu,
María, Kári og Baun (25. vikna og 4 daga)

Spark í rassinn?


Eins og við höfum nefnt áður þá er Baun alveg ferlega duglegur að hreyfa sig! ALLTAF á fullu þessi litli, greinilega mikill orkubolti á ferðinni! Nema hvað hann á það til að sparka allverulega í rassinn á Maríu.. að innan! Furðulegasta tilfinning í heimi! Þá er hægt að tékka það af The Bucket List 😉

Annars er allt gott að frétta af okkur fjölskyldunni. Baun stækkar og stækkar og María með. Verkir hafa aukist að einhverju leiti, þá sérstaklega í lífbeininu, enda mikill þrýstingur þar. María er því farin að vagga fallega þegar hún labbar 🙂

20151005_165650

Róbert er enn jafn spenntur yfir að fá að hitta litla bróður, en segir þó að það sé ekkert erfitt að bíða. Hann er mikið að pæla í því hvernig litli bróðir fái að borða, hvernig hann komist svo út á endanum og hvort hann megi nú ekki kítla hann smá (sem hann fær að gera og kitlar þá bumbuna og skríkir „nú var litli bróðir að hlæja!“) Róbert hefur meir að segja fundið litla bróðir hreyfa sig!

Við foreldrarnir erum að sjálfsögðu líka ótrúlega spennt. Undirbúningur er í fullum gangi! Enda margt sem þarf að eiga áður en litla krílið kemur, sömuleiðis þarf að rýma eins og hægt er í íbúðinni fyrir jólin, enda er hún ekkert sérstaklega stór og eiginlega bara gerð fyrir 3 einstaklinga. En þetta reddast allt saman! Þröngt mega sáttir sitja, sofa og lifa.

/María, Kári, Róbert Leví (4 ára og næstum 11 mánaða) og Baun (24 vikur og 4 daga)