11 mánaða


Frikki Lói varð 11 mánaða fyrir næstum mánuði síðan, enda styttist í eins árs afmælið 🙉 En áður en það gerist eru hér örfáir punktar bara svona upp á prinsipp:

 • Hann byrjaði hjá dagmömmu síðustu dagana í nóvember og var aðlögunin svona: eftir eina heimsókn á föstudegi mætti Kári á mánudegi með Frikka Lóa til Gunnu dagmömmu og skildi hann eftir í klukkutíma, það gekk rosalega vel og naut hann sín í botn. Á þriðjudaginn fékk hann að vera í tvo tíma og var rosalega sáttur. Þegar Kári kom að sækja hann sagði Gunna „ég held að þetta sé nú bara komið hjá honum.“ Fyrstu tvær vikurnar ljómaði hann og var ekkert skemmtilegra en að fá að fara til dagmömmu á morgnanna og hitta Stellu vinkonu. Þegar á leið var þetta þó ekki eins skemmtilegt og grætur hann yfirleitt smá þegar við skiljum hann eftir. Yfirleitt heyrum við þó gráturinn hætta áður en við erum komin upp í bíl, þannig ekkert alvarlegt 🙂

 • Hjá Gunnu dagmömmu hefur hann lært að borða. Hann ELSKAR kjöt og fisk, vill helst ekkert annað. Og það er ekkert „mata-mig“ bull í gangi, hann vill þetta í litlum bitum og bara tína upp í sig sjálfur, ef manni tekst að koma einum bita upp í hann með skeið þá spýtir hann þeim út úr sér og tínir svo upp sjálfur. Hananú! Hann borðar þó miklu betur matinn hjá dagmömmunni en heima. Við erum ekkert móðguð.
 • 11 mánuðirinn hans Frikka Lóa var okkur nokkuð erfiður, María byrjaði að vinna 50% 1. nóvember og var planið að Kári mundi vinna 50% á móti. Því miður leyfði verkefnin hans það ekki og var því Kári að vinna yfir 100% en með Frikka Lóa hálfan daginn líka. Þessi mánuður er því í svolítilli þreytu-móðu. Við urðum því himinlifandi að finna góða dagmömmu handa þeim litla og hefur okkur tekist að ná svefninum aftur hægt og rólega 🙂
Auglýsingar

10 mánaða!


Þá er litli snúður orðinn 10 mánaða! Í tilefni þess ákváðum við að rjúfa bloggþögnina 😉 Eins og flest ykkar vitið sem þekkið okkur þá er búið að vera mjög mikið að gera hjá okkur undanfarið. Við ákváðum að kaupa hús og allt fór á hvólf. Auk þess bilaði bíllinn og við erum búin að vera á strætó í 6 vikur! Það er meir en að segja það sem fjögurra manna fjölskylda að ætla að taka strætó útum allt; vinna, afmæli, læknisheimsóknir, búðarferðir, sundtímar og svo framvegis. Átök krakkar, átök!

En þótt þetta sé búið að vera erfitt þá erum við búin að njóta undanfarna mánaða í botn. Við eigum bestu og yndislegustu stráka í heimi. Róbert er klárasti krakki í heimi og Frikki Lói sá krúttlegasti! Þessir bræður eru bara það yndislegasta sem til er 😀 Við tókum meðvitaða ákvörðun um að á meðan lífið er svolítill hvirfilbilur að einbeita okkur eins og við getum að hvort öðru og reyna að láta ekki allt stressið og excel skjölin fara með okkur. Bloggið þurfti því að fá að víkja á meðan. Sem okkur finnst leitt því við viljum svo gjarnan geyma fjölskylduminningarnar hérna, en stundum krefst lífið einfaldleg að maður sé á staðnum að eiga þessar minningar heldur en að muna alltaf eftir því að skrá þær allar niður.

Anywho, þetta á víst að vera um Friðrik Lóa og hans 10 mánuði (9 mánuðurinn líka, því við gleymdum að setja hann hérna inn).

 • Frikki Lói er kominn með tvær tennur, tvær fremstu í neðri góm. Þær komu með stuttu millibili svona um 9 mánaða aldurinn.
 • Hann tók sín fyrstu skref! Alveg óvart, hann var að elta múmínmömmu sem hékk á úlpunni hennar Önnu vinkonu. Sá litli var svo spenntur, hafði ekkert til þess að halda í og þurfti því bara að gera svo vel að standa og taka nokkur skref. Sem hann hefur þó ekki fundist þörf á að gera aftur.
 • Ást hans á tónlist hefur bara farið vaxandi og er hann hin mesta alæta á tónlist, eins og sjá má glögglega á Spotify listanum hans hér.
 • Það er alveg greinilegt að sá litli veit nákvæmlega hvað hann vill. Eins og hann var nú easy going til þess að byrja með. En ef hann fær ekki að leika sér með skítugu kúka bleiurnar, oh my lordy! Þá er sko öskrað út um allt hverfið.
 • Friðrik Lói sefur upp í hjá okkur hálfa nóttina og finnst það afskaplega kósý. Eiginlega bara við líka þannig við erum ekkert að drífa okkur með að kenna honum að sofa alla nóttina, í bili allavegana. Hann drekkur 1-3 á nóttunni en þess á milli klessir hann sér upp við pabba sinn og vill helst hafa hausinn lengst upp í handarkrika Kára. Þess vegna er stundum dauf svitalykt af kollinum hans 😀
 • Róbert sagði við mömmu sína í gær „það er alveg hægt að leika sér með ungabörnum eins og Friðriki Lóa! Það er bara gaman.“ Og þeir bræður eru svo sannarlega duglegir að leika sér saman 🙂 Það skemmtilegasta er þegar Róbert finnur aukadýnuna og hendir bróðir sínum á hana og hleypur með hana útum alla íbúð, þá er sko fjör!
  20161110_185620

  Við erum búin að gefast upp á mánaðarmyndunum, svona leit baráttan út í dag

  20161110_1857410

 • Friðrik Lói er með spes matarsmekk. Við eigum stundum í talsverðum vandræðum með að finna út hvað sé hægt að gefa honum að borða. Það sem var gott í gær og í fyrradag þarf ekkert endilega að vera gott í dag. Okkur finnst hann svo ekki borða neitt sérstaklega vel. Hann klárar af disknum sínum einstaka sinnum (ef hann vill borða yfir höfuð) en yfirleitt ekki. Kannski erum við bara of góðu vön með Róbert sem borðaði allt og mikið.

Kaffibrúsakallarnir


Þessir litlu félagar eru náttúrulega bara það krúttlegasta sem til er! Þetta er hann Gísli Ævar og við erum svo heppin að bæði hann og móðir hans (Magga Lú) eru í fæðingarorlofi, á sama tíma og við Frikki Lói, sem hjálpar okkur mikið því annars værum við að sturlast úr einmannaleika! En betri fæðingarorlofsfélaga er ekki hægt að finna ❤

Hér eru þeir félagar, glænýir! Eða svo gott sem.. Frikki Lói er 2,5 mánuðum eldri en Gísli

Hér eru þeir félagar, glænýir! Eða svo gott sem.. Frikki Lói er 2,5 mánuðum eldri en Gísli

Eftir langan vinnudag: kaffibrúsakallarnir Friðrik og Gísli

Langur vinnudagur: kaffibrúsakallarnir Friðrik og Gísli

received_10154106830621284

Ekkert betra en kaffi beint af brúsanum!

Krútthausarnir!

Krútthausarnir!

Slettist einstaka sinnum upp á vinskapinn. Ekki oft samt, bara stundum.

Slettist einstaka sinnum upp á vinskapinn. Ekki oft samt, bara stundum.

Ég mæli svo með því að þið kíkið inn á þessa síðu, þið sjáið ekki eftir því! 😀

P.s. myndirnar eru að sjálfsögðu eftir Möggu, en eins og þið flest vitið er það henni að þakka að það séu til sómasamlegar myndir af okkur fjölskyldunni allt aftur til ársins 2010 🙂

8 mánaða!


Ok, ji, við vitum.. við erum ekki búin að vera dugleg að segja ykkur allt sem er að gerast hjá okkur eða skrásetja fyrir okkur sjálf. Lífið er stundum bara svolítið fyrir, eða réttara sagt, að gerast og kvenn/-maður hefur ekki tíma til þess að gera allt. En við viljum svo sannarlega ekki gleyma því að segja frá litla manni því hlutirnir gerast svo hratt hjá honum og við viljum hafa þetta allt til haga, so here we go!

 • Friðrik Lói er afskaplega duglegur að labba meðfram og með aðstoð (þar sem hann heldur í hendurnar á okkur). Helst vill hann ekki fara á milli staða nema hann fái að labba. Hann getur þó alveg skriðið að hermannasið (maginn ennþá á gólfinu) en labba er þó alltaf best.
 • Það er til bók, sem er að mörgu leiti góð, en er þó að sama skapi eitt af verkfærum djöfulsins*. Hún heitir Draumalandið. Í henni er sagt hvernig ungabörn eiga að sofa, sem er að mörgu leiti mjög gott, en getur líka verið kvalafullt. Í fyrstu vorum við með mikinn kvíða yfir því að hann væri alls ekki að sofa eins og ungabörn eiga að gera. Svo hættum við því. Á meðan öllum líður vel þá erum við ekki að þvinga hann í einhverja svefnrútínu. Hann vaknar yfirleitt tvisvar sinnum á nóttunni og drekkur alveg heilan helling í hvert skipti. Kári sér um að hlusta eftir honum á nóttunni og vekur Maríu þegar hann þarf sopann sinn. Hann tekur svo tvo daglúra.
 • Það hafa engar tennur látið sjá sig ennþá en tvær bungur í neðri góm sýna að það eru nú einhverjar á leiðinni.
  20160912_133554-1
 • Friðrik Lói hefur sýnt fá merki um aðskilnaðarkvíða og mannafælni. Hann ELSKAR að sjá ný andlit. Brjóstagóðar konur eru þó í sérstöku uppáhaldi. Þessi litli maður dýrkar brjóst (eðlilega, enda ungabarn) og finnst fátt betra en að liggja í brjóstagóðum faðmi.
 • Okkur finnst við stundum eiga lítinn hvolp; hvolp sem elskar að naga skó og slefar eins og hann eigi lífið að leysa. Auk þess finnst honum gott að sleikja fjölskyldumeðlimi sína. Og sjúga nef og hökur. Ef þið hafið ekki upplifað tannlausan slefeinstakling sjúga á ykkur nebbann þá eruð þið að missa af miklu í lífinu. Þetta er með furðulegri tilfinningum og svo kitlar þetta fáránlega. Við sitjum í hláturskrampa, Frikki Lói fer þá að hlæja óstjórnanlega og finnur svo næsta nef til þess að sjúga, sá fer að hlæja jafn mikið og svo heldur þetta áfram þangað til allir eru komnir með magaverk úr hlátri. Lífið verður bara ekki betra ❤

Frikki litli Lói er einstaklega glaður einstaklingur. Hann veitir okkur meiri athygli og bros en okkur finnst við eiga skilið og er okkur því mikill gleðigjafi. Við munum bara ekki eftir lífinu án hans.

*Við erum ekki að mæla gegn þessari bók, aðeins að benda foreldrum á að stressa sig ekki um of ef börnin þeirra passa ekki í kassana. Börn læra í laaaangflestum tilfellum (við vitum ekki betur) að sofa alla nóttina, það er bara misjafnt hvenær það gerist. Ef öllum líður vel þá er það það sem skiptir máli.

7…


..og hálfs mánaða.

Við erum með mjög svo löglega afsökun fyrir því að þessi mánaðarfærsla komi svona seint, það var fugl sem kom og skeit á teppið góða, teppið sem allar mánaðarmyndirnar eru teknar á, þegar það gleymdist út á svölum um daginn. Það tók svo tíma að sannfæra þvottavélina um að hún gæti víst þvegið fluglaskít úr ullarteppi. En hér erum við loks!

Það helsta í Lóafréttum:

 • Allt í einu byrjaði barnið að borða og vá, hann getur sko borðað! Það er bara ekkert betra en að gefa lystugu barni að borða, þvílík hamingja 😀
 • Hann er farinn að velta sér hingað og þangað og snúa sér í hringi. Kannski byrjar hann að skríða bráðum, en kannski ekki. Honum finnst nebbla ekkert rosa gaman að liggja á maganum og finnst skemmtilegra að standa. Hann er ekki farinn að standa upp ennþá sjálfur en heimtar að næsti fullorðni einstaklingur heldur í hendurnar á honum þannig að hann geti staðið.
 • Honum hefur einu sinni tekist að setjast upp sjálfur, en það var eiginlega óvart og hann virtist sjálfur hálf hissa á því. Pabbi hans var að reyna að svæfa hann á Spjörinni (bústaður) og hann fékk að sofna í hjónarúminu. Hann velti sér að sænginni, og svo þegar hann komst ekki lengra togaði hann sig upp með því að halda í hana. Honum hefur ekki tekist að endurtaka leikinn en oft verið nálægt því.
 • Okkur líður stundum eins og við séum með afrit af Róberti í höndunum. Friðrik, eins og stóri bróðir, er afskaplega mikil félagsvera og vill helst ekki hanga of mikið með foreldrum sínum. Ef við erum í heimsókn einhverstaðar vill hann helst vera í fanginu á einhverjum öðrum en okkur. Ef við erum svo á röltinu meðal ókunnugra hefur hann mestu ánægju af því að skoða öll andlitin og ef einhver slasast til þess að horfa tilbaka fær sá/sú RISA bros að launum 😀
 • Hann er mikill listaunnandi. Hann starir oft á myndir og brosir og svo dillar hann hausnum þegar hann heyrir grípandi lag.
 • Hann er mjög hrifin af boltum og er kátínan ein þegar hann fær að rúlla á milli við foreldranna. Þótt boltinn fari ekki alltaf þangað sem hann vill eru foreldrarnir stoltir af því hvað þetta er meðvitaður leikur hjá honum.
 • Hann er byrjaður að apa eftir. Þegar hann var orðinn dáldið leiður á leikgrindinni kom pabbi hans og sýndi honum hvernig hann gæti slegið saman tveimur sleifum og búið til hljóð. Sá littli reif sleifarnar af pabba sínum og fór líka að slá þeim saman (reyndar nuddaði hann þeim aðalega saman þar sem honum tókst ekki alltaf að slá, en það var augljóst hver ætlunin var).
 • Við höfum svo verið að notast við Elimination communication og gengur okkur nokkuð vel að lesa þegar hann þarf að kúka og setjum hann þá á koppinn. Hann er allavegana mjög góður í að vita hvað maður gerir við kopp og klósett. Við vitum ekki hvort þú kæri lesandi hefur áhuga um að lesa frekar um þessa aðferð og hvernig þetta virkar, ef svo er þá mátt þú láta okkur vita. Við mundum þá gera sér færslu um þetta 🙂

Sex mánaða


Littla krúsídúllan okkar varð sex mánaða (hálfs árs!) í gær. Það þýðir að hann er líklega nú þegar búinn með 0,33% af ævi sinni (miðað við að hann verði 150 ára – Kári hefur mikla trú á tækniframförum komandi ára). Svona er gullmolinn okkar í dag:

 • Hann kann að nota röddina. Jafnvel þegar hann er ekki að kvarta getur hann verið afskaplega hávær. Svo hávær að það getur verið erfitt að halda uppi samræðum við aðra. Þegar fjölskyldan fer í sund þá heyrist í honum á milli klefa! Kári heldur að þetta séu genin hennar Maríu. Allir aðrir halda að þetta séu genin hans Kára.
 • Hann er mikið að pæla í útlimum sínum og öðrum líkamspörtum. Hann getur verið heilllengi að skoða fæturnar sínar eða hendurnar og heldur því áfram á meðan hann beitir þeim.
 • Það er í miklu uppáhaldi hjá honum að snúa uppá sig með því að setja efri hluta líkamans á hlið. Ef einhver er fyrir aftan hann þá snýr hann líka uppá magan í leiðinni og snýr hausnum jafnvel þannig að andlitið snýr upp. Þannig vekur hann mikla kátínu, ekki síst hjá sjálfum sér.
  IMG_0960-2
 • Hann er ákveðinn eins og bróðir hans er/var, og finnst ekki gaman að missa leikföng.
 • Honum finnst stóri bróðir sérstaklega fyndinn, en þreytist þó yfirleitt fyrr á bröndurunum en bróðir sinn. Annars er hann einkar glaðlyndur og yfirleitt stutt í hláturinn. Stundum tekst honum meira segja að hlæja á sama tíma og hann grætur þegar pabbi hans er að reyna að hugga hann.
 • Hann var í sex mánaðaskoðun á föstudaginn síðastliðinn og mældist þá 9,3 kíló, sem er svipað og sum 18 mánaða börn.

Ég kann að sitja alveg sjálfur, kannt þú?


image

Þessi litli kall er farinn að sitja alveg sjálfur og hefur gert í um mánuð og bara orðinn ansi góður í því.

Hins vegar hefur honum ekki dottið í hug að snúa sér sé góð hugmynd :p. Hann snéri sér í allar áttir fyrstu vikurnar sínar, en okkur grunar að hann hafi svo stækkað það hratt að hann hafi gleymt tækninni og núna sé hann bara ekki að nenna þessu 😉 Enda mældist drengurinn næstum 9 kg í 5 mánaða skoðuninni!

Hjúkkan í þeim tíma var þó ekki að hafa miklar áhyggjur af þessu, hann er það kröftugur að þetta er bara tækni atriði sem hann þarf að ná 🙂

Bestu bræður í heimi!


Það sem þessir drengir geta brætt okkur! Við vonum svo sannarlega að þeir verði alltaf svona ljúfir við hvorn annan, elska, virða og fái að hlæja svona mikið saman 😀

Hér eru þeir tveir á spjallinu, fyrir um mánuði síðan:

Snapchat dagur


Áður en María byrjaði að vinna þá tók hún maraþon Snapchat-dag (12. maí) og birti fullt fullt af myndum um það sem gengur og gerist með Friðrik Lóa í fæðingarorlofi.

Það eru til þeir sem halda að Windows símar séu bara með það besta í heimi (þið vitið hver þið eruð) en svo er svo sannarlega ekki og ástæðan er einföld: það er ekki til Snapchat fyrir Windows síma!

En af því að okkur þykir svo vænt um ykkur (þrátt fyrir skrítna símasmekki) að þá ákváðum við að setja saman þessar myndir, svo þið munduð nú ekki missa af öllu, heldur bara mestu 😀

5imm mánaða


Síðburðurinn okkar hefur nú fimm mánaða reynslu af okkar skrítna heim og tveimur dögum betur. Af því tilefni viljum við deila með ykkur hans heim. Því miður þarf það þó að vera frá okkar sjónarhorni því við vitum ómögulega hvernig hann upplifir hlutina.

 • Hann er byrjaður að skoða alla hluti í kringum sig af miklum ákafa. Í þessum töluðu skrifuðu orðum.er hann að reyna að taka tölvuna af pabba sínum, helst til þess að setja upp í sig, en amk að fá að handfjatla og hamra á lyklaborðið.
 • Friðrik Lói skrifar: cfgf gh ,u,huii,,,uu,,ijj zzzzzzzzzzzzzzzzzzzz
 • Hann er orðinn frekar óþreygjufullur eftir því að geta setið; stór hluti af tímanum hans fer í að gera magaæfingar (þegar hann er að reyna að setjast upp).
 • Hann var orðinn algjör snillingur í að kúka á klósettinu, en eftir að pabbi er kominn í fæðingarorlof og mamma farin að vinna hefur orðið dálítil afturför. Það er líka sérstakt áhugamál hjá honum að láta foreldra sína skipta oft á sér í röð, enda skemmtir hann sér yfirleitt konunglega á skiptiborðinu.
  IMG_0468-1b
 • Honum finnst hrikalega gaman með pabba sínum í fæðingarorlofi. Það er að minnsta kosti það sem sá gamli segir sjálfum sér þegar sá litli vaknar alltaf eftir minna en hálfan lúr.
 • Hann er ekkert að drífa sig að fara að velta sér (fyrstu vikurnar var hann alltaf fljótur að snúa sér af maga yfir á bak, en hefur gleymt því síðan þá). Kannski á hann erfitt með það vegna þess hve stór hann er. Fyrir vikið er pabbi byrjaður að setja hann í strangar þjálfunarbúðir, við mismikla hrifningu frá þeim littla.
 • Hann nýtur þess í botn að vera í ungbarnasundi. Í raun er hann sjaldan hamingjusamari og þá skiptir engu þótt foreldrar hans ýti honum í bólakaf í vatnið þar sem er erfitt að anda, ja eiginlega ómögulegt.
 • Þótt hann geti verið þreyttur og pirraður á kvöldin er það líka sá tími þar sem hann hlær mest. Stundum er eins og hann sé með svefngalsa þar sem hann getur verið í hláturskasti við það eitt að sjá foreldra sína. Kannski áttar hann sig þá á því hvað foreldrar sínir eru miklir kjánar, eða hvað lífið er fyndið.
 • Friðrik Lói tók í fyrstu ekki mikið eftir Róberti, enda hreyfði hann sig svo mikið að hann náði aldrei almennilega að festa augun á hann. Núna er Róbert þó í miklu uppáhaldi og hlær hann mikið þegar hann sér stóra bróður sinn. Róberti finnst svo ekki síður gaman að pota í bumbuna á litla bróður og fá hlátrasköll að launum. Reyndar er það Frikki Lói sem gefst yfirleitt upp á leiknum á undan Róberti 😉
  IMG_0510-1

Fyrsta bíóferðin!


Við Friðrik Lói fórum saman í mömmu og pabba bíó í dag, svaka sniðugt 🙂

image

Ferðin gekk bara nokkuð vel. Friðrik Lói var vakandi allan tímann og var afskaplega sáttur og glaður (þótt myndin gefi það ekki til kynna 😉 ), spjallaði helling, kúkaði tvær sprengjur, lék sér við frú apa og var almennt spenntur yfir myndinni 🙂

image

Bíó í fyrsta sinn!

Velkominn í heiminn!


Við fengum þessi æðislegu plaggöt frá Ingunni vinkonu en þessi frábæri snillingur hannaði þau sjálf 😀

20160502_125416-1

P.s. það er hægt að kaupa þessi plaggöt, frábær skírnargjöf! 😉 Látið mig endilega vita ef þið hafið áhuga.

P.p.s. Við fáum ekki greitt fyrir þessa auglýsingu, það er okkar einlæga skoðun að þetta er frábær gjöf fyrir nýbakaða foreldra 😀

Fjögurra mánaða!


Reyndar fyrir alveg fimm dögum, en stundum er bara mikið að gera :p

Það helsta frá líðandi mánuði:

 • Friðrik Lói er afskaplega tónelskur. Hann er kannski kvartandi og svo byrjar maður á nokkrum sönglínum og barnið bara byrjar að brosa! Aldrei höfum við séð annað eins. Hann byrjar jafnvel að söngla aðeins með, sem okkur finnst að sjálfsögðu fallegustu tónar sem við höfum heyrt ❤
 • Friðrik fékk að prófa að jappla á brokkolí í fyrsta sinn í mánuðinum. Það fór reyndar lítið sem ekkert í magann en það var samt þvílíkt sport að naga, enda farinn að klæja ansi hressilega í gómnum.
  20160425_152140
 • Og talandi um klæjandi góm, barnið er farið að slefa heilann helling. Við tókum þá ákvörðun, eftir reynsluna með Róbert sem slefaði til 1,5 ára, að fjárfesta í fleirum smekkjum. Við erum búin að prófa nokkra og fyrir utan þessum heimahekluðu finnst okkur IKEA smekkirnir bestir.
 • Friðrik er orðinn afskaplega duglegur að hreyfa hendurnar og er farinn að grípa heilan helling, og vill að sjálfsögðu setja allt upp í sig sem hann nær að grípa 😀
 • Fólk eru í miklu uppáhaldi og eitt það skemmtilegasta sem hann veit er að sjá ný andlit. Enn sem komið er sýnir hann ekki merki um aðskilnaðarkvíða.
 • Friðrik Lói hóf ungbarnasundsferil sinn á mánaðarafmæli sínu og stóð sig ótrúlega vel! Það var líka alveg greinilegt að hann naut sín í botn og brosti allan tímann 🙂
 • Þótt sá litli brosir alveg ótrúlega mikið þá er hann ekkert mikið að bæta við hljóði og því ekki mikið um hlátur hjá þeim litla. Það finnst okkur í góðu lagi svo lengi sem hann heldur áfram að brosa svona mikið 🙂
  IMG_0368-1.b
 • Fólk heldur yfirleitt að Friðrik sé eldri en hann er, enda afskaplega stór og kröftugur. Hann er nú þegar farinn að vaxa upp úr fötum sem Róbert var í þegar hann var 6-8 mánaða.
 • Enn er ekki komin nein almennileg regla á dagsvefninn hjá honum. Hann fer yfirleitt að sofa milli 7-8 á kvöldin og fer á fætur um 7-8. Fyrsti daglúrinn tekur hann 1-3 tímum seinna, en það er mjög misjafnt hvað hann er langur og þar af leiðandi hvenær næsti lúr og þar næsti lúr er.

Fyrir ári síðan..


María gat því miður ekki toppað þrítugsafmælisgjöfina sem Kári fékk í fyrra: jákvætt óléttupróf* 😉

En í dag er ár síðan að við vissum af tilvist Friðriks Lóa! Hvernig í óskupunum urðu tvær bleikar línur að þessum dreng? Á bara ári?! Lífið er alveg ótrúlega magnað..

Efsta prófið var tekið fyrir akkurat ári síðan. Lína tvö (sem sýnir jákvætt próf) var svo dauf að hún sást ekki á mynd

Efsta prófið var tekið fyrir akkurat ári síðan. Lína tvö (sem sýnir jákvætt próf) var svo dauf að hún sést ekki á mynd

Friðrik Lói að spjalla við stóra bróður, en hann var bara nokkrar frumur fyrir ári síðan :o

Friðrik Lói að spjalla við stóra bróður, en hann var bara nokkrar frumur fyrir ári síðan 😮

*Edit: við vorum alls ekki að reyna að toppa gjöfina í fyrra 😛