Meiri tónlist


Auglýsingar

Þegar maður er svo sætur að Snapchat filter bætir engu við


Gullmoli Róbert


Miðvikudaginn 5. apríl 2017:

Við erum svolítið sein heim en Róbert þarf stundum að bíða nokkrar mínútur þar sem hann leggur að stað frá dægradvölinni klukkan 4. 

Þegar við komum heim sjáum við Róbert hlaupa í litla hringi fyrir utan útidyrnar, það er greinilegt að honum sé mál. 

María hleypur út til að flýta sér að opna hurðina svo hann komist á klósettið. „Þarftu á klósettið Róbert?“ 

„Já og greyið dýrin!“

„Dýrin?“

„Já, það er rusl útum allt og greyið dýrin!“ Og hleypur svo upp á klósettið 😉
Laugardagurinn 8. apríl 2017:

Við erum að stússast í húsinu og María segir við Kára að okkur vanti hallamál. 

„Afhverju ekki konumál?“ spyr Róbert. 

„Nei, HALLAmál, ekki kallamál“ 😂😂

1 árs!


Þessi litli snillingur er eins árs í dag 😀

20170110_192124

Afmælisstrákur að skoða gjöfina frá mömmu og pabba

Hann byrjaði daginn á því að græta bróður sinn með því að klóra hann í nefið með tánöglinni. Róbert var þó fljótur að fyrirgefa honum og gaf honum knús, koss og „ég elska þig“ áður en hann fór í skólann.

Það koma upp ýmsar tilfinningar við tilhugsunina um þennan dag fyrir ári síðan, ekki síst gleði, léttir og awe, svo kona/maður sletti nú aðeins. Þessi fullkomna fæðing! Ji, hvað við erum hamingjusöm og þakklát fyrir að hafa fengið þá fæðingu sem við óskuðum eftir. Og ég (María) finn ennþá rosalegan létti yfir að meðgangan og fæðingin sé búin, að hann sé kominn í heiminn og við fáum að kynnast honum meir og meir á hverjum degi. Þvílík blessun! Þetta lag gefur mér enn gæsahúð:

Fyrir ykkur sem eruð með lykilorð bendum við á fæðingarmyndirnar hér (ef þið þekkið okkur og viljið lykilorðið þá sendið okkur skilaboð 🙂 ) Fæðingasöguna getið þið svo lesið hér.

Frikki Litli Lói í dag:

  • Þegar Friðrik Lói var 8 mánaða tók hann sín fyrstu skref. Þegar hann var 10 mánaða var hann orðinn vel stöðugur þegar hann stóð, og tók einstaka sinnum eitt til tvö skref, sérstaklega þegar hann var að koma til foreldra sinna. Þá héldum við að labbið væri nú bara að detta inn. En svo er aldeilis ekki. Hann er á nákvæmlega sama stað og þá.
  • Málþroskinn hans hefur hins vegar aukist verulega. Hann gefur frá sér sífellt flóknari hljóð, bendingar og líkamstjáning virðast hafa meiri meiningu, og hann á það til að leika sér að henda hlutum og segja svo sakleysislega „Datt“ (þar sem t hljóðið er einhvern vegin mitt á milli t og h)
  • Barnið er hávært! Það kann að öskra, sérstaklega þegar við sitjum við matarborðið og það fær ekki næga athygli. Greyið María þarf því nú að lifa með þremur köllum sem hafa ekki enn lært að hemja raddböndin sín. Hún á þvi skilið alla okkar samúð.

Nú ætlum við að fara að knúsa litla kraftaverkið okkar 😀

„Þetta er api“ Róbert sér myndir af sjálfum sér í þrívíddarsónar


Um daginn vorum við að skoða gamlar myndir og duttum á myndirnar frá þrívíddarsónarnum sem voru teknar í október 2010. Skiljanlega átti Róbert erfitt með að skilja samhengið, að þetta hafi verið hann þegar hann var í maganum á mömmu!

Pabbakaup í sundbúð


Laugardagurinn 9. ágúst 2014:
Pabbi liggur upp í rúmi að hvíla sig og er með sængina hans Róberts. Róbert er hjá honum og pabbi spyr:
„Ertu ánægður með sængina þína Róbert?“
„Já“
„En ertu ánægður með pabba?“
„Nei“
„Af hverju ekki?“
„Ég vil pabba sem ruglast aldrei og er ekki vond lykt af“
Þá labbar mamma inn í herbergið og pabbi spyr:
„En mamma, ertu ánægður með hana?“
„Já, það er ekki vond lykt af henni“
Kári lætur þá Maríu vita að Róbert sé ekki ánægður með pabba sinn og langar í nýjan.
„Ég er nú ekkert rosalega ánægð með það Róbert,“ segir mamma „hvar ætlaru svo sem sem að fá nýjan pabba?“
„Við kaupum bara nýjan“
„Hvar kaupir maður svoleiðis,“ spyr pabbi „bara út í búð? Svona pabbabúð?“
„Nei, í sundbúðinni,“ svarar sá stutti.
Þá vitum við það, það er hægt að kaupa pabba í sundbúðum. María er þó ekkert á því að við þurfum að skipta, frekar að senda pabba oftar í sturtu 😉
P.s. María er alls ekki sammála Róberti að það sé vond lykt af Kára, annað hvort er þefskyn gamlingjanna orðið svona lélegt eða barnið að rugla. Við viljum meina að barnið sé að rugla.

20140703_165526

Þennan gullmola ásamt fleirum finnið þið hér 🙂

Listamaður? Öh…já!


Erum í matarboði og sáum þessi frábæru listaverk á veggnum! Eigum við verðandi listamann?

image

Það skal tekið fram að þetta er hjá ömmu og afa. Það sem vantar upp á hæfileika bætist upp með ömmu og afa stolti og ást.

#TBT – Throwback Thursday on a Tuesday


Fyrir þremur árum síðan: TBT.22.5.14a Fyrir tveimur árum síðan:TBT.22.5.14b Að Róbert hafi verið svona lítill! Og í dag byrjaði hann á stóru deild á leikskólanum! Fjúff, tíminn líður..

Smá gull og molar


Það gengur ágætlega með nýársheitið, við (hrm.. María) erum að taka miklu fleiri myndir á góðu vélina! *stolt, stolt, mont, mont* Þær eru kannski ekkert allar frábærar, enda flestar bara af hversdagslífinu en gaman að eiga samt 🙂

Við höfum ekki bent ykkur á Gullmolana hans Róberts í smá tíma. Við reynum að muna að skrifa þarna allt það skemmtilega og furðulega sem Róbert gerir. Því miður ratar aðeins brotabrot af því hérna inn. Það mætti kannski setja það sem síðbúið áramótaheit að bæta það? Endilega kíkið á þá ef þið hafið ekki skoðað molana nýlega.

299-1

Komdu Bangsavinur!


Þið hafið kannski tekið eftir því að Róbert á uppáhalds Bangsa. Þessi Bangsi er í annarri hverri mynd af Róberti enda fylgir hann Róberti hvert sem hann fer. Á koppinn, í leikskólann, við matarborðið, í húsdýragarðinn, til útlanda og svo lúllar Bangsi að sjálfsögðu alltaf með Róberti.

Í gær tókst þó Róberti að lauma Bangsa með sér á enn einn stað þar sem Bangsi hefur aldrei komið með áður. Ástæðan er sú að við foreldrarnir höfum alltaf bannað það og ústkýrt ljúflega „þegar Bangsi fer í bað þá fer hann í þvottavélina, honum finnst það best!“ Okkur brá heldur betur þegar við komum að greyið Bangsa fljótandi í baðinu! Róbert skemmti sér þó konunlega við að henda honum í vattnið og skvetta útum allt. Þetta var nú líka ágætt, Bangsa veitti ekkert af baði 😉

031 041 044-7-1 048-9-3

Til í spjall?


Róbert elskar að tala í síma og ef hann hefur engan til þess að tala við þá þykist hann tala við einhvern í síma.. Hér er dæmi um símtal við nokkra í einu; pabba, Lilju, bát og hákarl.

Venjulega er Róbert ekki svona dónalegur og ussar á okkur en einhverra hluta vegna þá heldur hann að það sé hluti af því að tala í síma að vera dónalegur við aðra í kringum sig. Við höldum að hann hafi lært þetta á leikskólanum 😉